Breska farsímafyrirtækið Aerofone, sem er í eigu Símans, fékk í gærkvöld viðurkenningu samtaka breskra farsímafyrirtækja, Mobile News Awards, sem eitt af þremur bestu þjónustufyrirtækjunum á breska farsímamarkaðnum, segir í frétt frá fyrirtækinu.

Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Hilton hótelinu við Park Lane í London. Þetta var í áttunda sinn sem Aerofone var tilnefnt til þessara verðlauna.

Aerofone sérhæfir sig í sölu á farsímaþjónustu til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Síminn keypti nýverið öll hlutabréf í Aerofone til að fylgja eftir útrás íslenskra fyrirtækja. Starfsemi Aerofone fellur afar vel að starfsemi Símans sem getur nú boðið viðskiptavinum sínum á Bretlandseyjum alla fjarskiptaþjónustu.

Sævar Freyr Þráinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækjamarkaðs Símans er stjórnarformaður Aerofone. Hann segir verðlaunin sérstaklega ánægjuleg og undirstrika framúrskarandi þjónustu fyrirtækisins og góða stöðu þess á breska farsímamarkaðnum.

Aerofone var stofnað árið 1985 og hefur undanfarin ár hlotið fjölda tilnefninga og verðlauna fyrir þjónustu sína.