*

fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Innlent 16. apríl 2021 07:01

Erlent fjármagn leitar út

Sala erlendra sjóðstýringarfyrirtækja á hlutabréfum í Arion banka og sala ríkisbréfum vega þungt.

Ritstjórn
Seðlabanki Íslands gaf í vikunni út ritið Fjármálastöðugleiki.
Haraldur Guðjónsson

Hrein nýfjárfesting var neikvæð um 57 milljarða króna árið 2020. Þar af seldu erlendir aðilar ríkisbréf fyrir 51 milljarð og var salan aðallega bundin við einn stóran skuldabréfasjóð sem í upphafi árs átti helming allra ríkisbréfa í eigu erlendra aðila en hann losaði um alla stöðuna á árinu. Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleiki, sem Seðlabankinn birti í fyrradag.

Í lok mars áttu erlendir aðilar 45 milljarða í ríkisbréfum eða um 4% af heildarútgáfu ríkisbréfa, sem er lágt í sögulegu tilliti og í erlendum samanburði. Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs var hrein nýfjárfesting neikvæð um 58 milljarða króna en útflæðið stafar fyrst og fremst af sölu erlendra sjóðstýringarfyrirtækja á hlutabréfum í Arion banka. Þá lækkuðu „aflandskrónur“ um ríflega helming árið 2020, að megninu til undir lok árs en fram að því hafði staða þeirra lítið sem ekkert breyst frá því að losað var um hömlur á þær vorið 2019. Staða þeirra nam 26 milljörðum í lok mars og þar af var um helmingur í innstæðubréfum Seðlabankans. Fyrirhuguð ný lög um gjaldeyrismál og brottfall aflandskrónulaganna gætu leitt til aukinna fjármagnshreyfinga til og frá landinu.