Norska fyrirtækið NorSea Group vill koma sér fyrir á Vopnafirði og þjónusta þaðan olíuleitarfyrirtæki. „Fyrirtækið hefur lýst yfir áhuga á því að koma sér fyrir í Finnafirði þegar og ef farið verður að vinna olíu og bora mikið á Drekasvæðinu,“ segr Hafsteinn Helgason, verkfræðingur og sviðsstjóri hjá verkfræði- og ráðgjafafyrirtækinu Eflu. Hann er verkefnastjóri hafnarverkefnis í Finnafirði í Bakkaflóa.

Í Finnafirði er stefnt að því að þjónusta námavinnslufyrirtæki á Grænlandi, vöruflutningaskip og olíuleit á Drekasvæðinu. Enn fremur er hugmyndin sú að nýta hið mikla byggingarland sem er í firðinum undir hafnsækna starfsemi. Hægt er að reisa þar verksmiðjur, vörugeymslur og olíubirgðastöð.

„Hvort sem menn trúa því eða ekki þá munu vöruflutningar um Norður-Íshafið aukast á næstu árum, sérstaklega frá norðurhluta Rússlands. Ef ísinn heldur áfram að hopa, eins og hann hefur gert hingað til, þá verður töluverð skipaumferð á þessu svæði. Þetta verða ekki bara olíu- og gasflutningar heldur einnig málmgrýtis- og timburflutningar. Það er gríðarleg timburvinnsla á öllu þessu svæði. Fyrir nokkru síðan ræddu við okkur fyrirtæki sem höfðu áhuga á að byggja á Íslandi olíubirgðastöð. Slík olíuhótel, ef svo má að orði komast, eru úti um allan heim. Eitt slíkt er til dæmis í Hvalfirðinum.Þessi fyrirtæki vilja vera með sína tanka á öruggum stað og þar sem ódýrt er að byggja. Það er líklega miklu ódýrara að byggja stóra olíubirgðastöð í Finnafirði heldur nokkurn tímann á Reyðarfirði eða í norskum fjörðum þar sem lítið sem ekkert undirlendi er. Viðræður um þetta eru samt ekki komnar á alvarlegt stig. Enn sem komið er eru þetta meira hugmyndir, en að mínu viti getur þetta verið mjög áhugaverður kostur,“ segir Hafsteinn.

Rætt er ítarlega við Hafstein í síðsta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .