Ætla má að umfang neðanjarðarhagkerfisins innan ferðaþjónustunnar sé a.m.k. um 10-12 milljarðar króna á ársgrundvelli hér á landi skv. heimildum Viðskiptablaðsins. Eins og gefur að skilja er erfitt að ná utan um umfang neðanjarðarstarfsemi (þá væri hún ekki neðanjarðar mikið lengur) innan einstakra atvinnugeira en samkvæmt þeim upplýsingum sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum má gera ráð fyrir að um fyrrnefndar upphæðir sé að ræða innan ferðaþjónustunnar.

Í raun má segja að svört atvinnustarfsemi skiptist í þrennt innan ferðaþjónustunnar, í víðu samhengi. Í fyrsta lagi er að um að ræða hefðbundna svarta atvinnustarfsemi eins og við þekkjum hana. Þetta er algengast innan veitingageirans og afþreyingarfyrirtækja.

Í öðru lagi er um að ræða aðila sem reka starfsemi án þess að hafa til þess leyfi. Þetta er langalgengast hvað gistirými varðar. Skv. úttekt sem SAF gerði í fyrrasumar kom í ljós að fjöldi íbúða og herbergja, sem stóð ferðamönnum til boða, var rúmlega það framboð sem tvö stór hótel bjóða upp á. Þetta sama á við í öðrum greinum innan ferðaþjónustunnar, t.d. í afþreyingarferðum. Dæmi eru um að jeppaeigendur, svo tekið sé dæmi, stundi það að fara með ferðamenn í ferðir upp á hálendi án þess að hafa til þess tilskilin leyfi.

Í þriðja lagi, og líklega það sem erfiðast er að ná utan um, eru viðskipti sem fara fram hér á landi en greitt er fyrir erlendis. Samkvæmt heimildum blaðsins eru dæmi um að einstaklingar og fyrirtæki í ferðaþjónustu selji þjónustu til erlendra aðila og innheimti greiðslu fyrir það erlendis. Sá peningur skilar sér að sjálfsögðu aldrei inn í hagkerfið eins og gefur að skilja. Þessu tengt þá eru einnig dæmi um það að erlendir gjaldmiðlar, sem innheimtir eru í reiðufé fyrir þjónustu hér á landi, séu fluttir úr landi og lagðir inn á erlenda bankareikninga skv. heimildum Viðskiptablaðsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðinum tölublöð hér að ofan.