Millifærslur einstaklinga á Íslandi til útlanda sexfölduðust á milli áranna 2014 og 2018, úr 4 milljörðum króna í 25 milljarða króna samkvæmt samantekt Viðskiptaráðs, byggt á gögnum frá Seðlabanka Íslands.

Á móti hafa millifærslur einstaklinga til Íslands hækkað úr einum milljarð í fimm milljarða króna á sama tímabili.

Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, setur millifærslurnar í samhengi við fjölgun erlendra starfsmanna hér á landi. Hagstofan áætlar að um 40 þúsund starfsmenn af erlendum uppruna starfi hér á landi og að sá hópur telji nú um 20% af íslenskum vinnumarkaði. Konráð bendir því á að upphæðin samsvari um 50 þúsund krónum á mánuði á hvern starfsmann af erlendum uppruna, eða um 600 þúsund krónur á ári. „Þetta virðist endurspegla þessa ótrúlega miklu fjölgun erlendra ríkisborgara, sterkari krónu og hækkun launa,“ segir Konráð.

© Aðsend mynd (AÐSEND)