Sjálfakandi bílar er jafnan hið fyrsta sem menn nefna þessa dagana, þegar þeir bollaleggja framtíðina. Þegar svo horft er yfir svið alþjóðastjórnmála fyrirgefst mönnum þó svo virðist sem framtíðin sé komin og enginn við stjórnvölinn. Í helstu löndum Evrópu ríkir pólitísk ringulreið og traust á helstu stofnunum hefur haldið áfram að dvína, sem þó er ekkert hjá trúðleikunum vestanhafs. Þessi pólitíska upplausn víða á Vesturlöndum hefur vitaskuld orðið vatn á myllu ýmissa annara ríkja, þar sem valdhafarnir þurfa ekki að hafa jafnríkar áhyggjur af umboði sínu og áliti almennings.

Tæplega þarf að eyða mörgum orðum í lánleysi Theresu May, forætisráðherra Breta, sem glutraði niður sterkri stöðu sinni innanlands með kosningaflani og hefur síðan verið í tómum vandræðum með Brexit (úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu), með veikt umboð heima og heiman og hefur ekki undan að slökkva endalausa enda.

Hinu megin Ermarsunds eru Frakkar að vakna upp við það að það var sjálfsagt bjartsýni að búast við nýjum og betri stjórnmálum í landinu með kjöri Emmanuels Macron, skilgetnu afkvæmi hins franska valdakerfis, þó svo hann hafi stofnað nýjan flokk stofuhæfra pópúlista og hvorki orðið ber að spillingu né rasisma.

Það er ekki langt síðan menn settu allt sitt traust á Angelu Merkel Þýskalandskanslara, hvernig sem allt ylti og snerist, þá væri allt undir kontról hjá Angelu. Það hefur heldur betur breyst og þó hún sé enn á vettvangi eru menn á einu máli um að sól hennar sé farin að hníga. Hvað við tekur er ómögulegt að segja, hin pólitísku hlutföll í Þýskalandi eru ekki afgerandi, en öfgaflokkar orðnir óþægilega öflugir.

Forystuna er ekki heldur að finna í Brussel. Hinn drykkfelldi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), Jean-Claude Juncker, hefur engan veginn risið undir verkefnum sínum og hefur sagt að hann muni ekki leita endurkjörs 2019, sem tæplega styrkir stöðu hans. Samningamenn ESB hafa nýtt sér vandræðin í Lundúnum og gengið á lagið í samningum sínum við Breta. Það kann að þjóna pólitískum hagsmunum valdastéttar ESB að refsa Bretum, en gengur þvert á viðskiptahagsmuni ESB, sem á talsvert undir greiðum viðskiptum við Breta. Á sama tíma hafa ýmis brýn, innri mál Evrópusambandsins verið vanrækt, að ógleymdri spennu milli ólíkra svæða innan þess.

Á meðan í Trumpistan

Það pólitíska vandræðaástand er þó nánast lítið hjá því sem gerist vestur í Bandaríkjunum. Eins og lesendur hafa væntanlega tekið eftir hefur Donald Trump ekki reynst það sameiningarafl Bandaríkjamanna, sem hann sjálfan dreymdi einan um. Til skamms tíma leit út fyrir að hann kynni þó að komast upp með hina óvenjulegu stjórnarhætti sína, ekki síst eftir að Repúblikanaflokkurinn virtist í stórum dráttum taka hann í sátt, en þingmenn flokksins fundu fyrir því í kosningum að miklu skipti fyrir þá að vera í liði með forsetanum. Það breyttist í Alabama á dögunum, þegar konur kusu í miklum mæli gegn frambjóðandanum Roy Moore sem Trump studdi með ráðum og dáð.

Ekki er nóg með að það hafi dregið mjög úr tiltrú manna á kosningavaldi Trumps. Stjórnmálaskýrendur þar telja að þar kunni að vera fundinn fleygurinn gegn Trump, sem demókratar þurfa til þess að losna við hann. Og ekki endilega í kosningum. Tveir voldugir þingmenn demókrata hafa þurft að segja af sér vegna ásakana í þeirra garð í #MeToo byltingunni og hvíslað er um að Bill gamla Clinton verði afneitað bráðum, allt til þess að ryðja brautina að forsetanum. Sem kunnugt er hafa margvíslegar ásakanir um dónaskap og óviðeigandi hegðun í garð kvenna komið fram gegn Trump, en ekki haft teljandi áhrif. Það kynni að breytast. Það kynni jafnvel að velta honum úr forsetastóli.

Nú er efnahagslífið vestra með nokkrum ágætum, svona miðað við ástandið í forsetatíð Obama, sem fékk fjármálakreppuna í fangið á fyrsta degi. Hagvöxtur í Bandaríkjunum á síðasta ársfjórðungi er talinn verða hátt í 4% og Wall Street er í góðum gír. Nú má vel efast um að það sé Dónaldinum að þakka, en efnahagslífið er a.m.k. ekki þær rjúkandi rústir, sem menn á borð við Nóbelsverðlaunahafann Paul Krugman spáðu með mikilli vissu að yrði raunin eftir árið með Trump í Hvíta húsinu.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af ritinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .