Hin 50,5 kílómetra löngu Ermasundsgöng (Eurotunnel) eru enn rekin með bullandi tapi eftir 16 ára rekstur. Samt standa á bak við þær tvær stórþjóðir, Bretar og Frakkar, með samtals yfir 120 milljónir íbúa.

Samkvæmt hálfs árs uppgjöri 2010 nam nettótapið 45 milljónum punda. Það er þrátt fyrir 41% aukningu í flutningum á trukkum með lestum um göngin, 17% aukningu á á fólksbílaflutningum og 8% aukningu á flutningi á gámum miðað við sama tímabil árið 2009.  Þá hefur rekstarkostnaður minnkað um 14 milljónir punda á tímabilinu.

Skuldir fyrirtækisins eru gríðarlegar. Um síðustu áramót var fyrirtækið með samtals 3.654 milljónir punda í lánum á bakinu.

Eurotunnel fyrirtækið hefur einkarétt á flutningum um Ermasundsgöngin fram til 2086. Þann 21. júlí sl. var því fagnað er farþegi númar 250 milljón fór um göngin frá því þau reksturinn hófst í júní árið 1994. Af þessum 250 milljón farþegum voru 58% með bílum sem fluttir voru á lestarvögnum í gegnum göngin. Að meðaltali hafa um 43 þúsund farþegar farið um göngin á dag frá opnun ganganna eða ríflega 15 milljónir á ári.