„Það verður einhver að þora að taka skref í þessu landi,“ segir Erna Gísladóttir, stjórnarformaður BL en bílaumboðið hefur bætt umboði fyrir Dacia-bíla í safn sitt. Sala á bílunum hefst í næsta mánuði. Bílarnir eru framleiddir í Rúmeníu en Dacia hefur verið dótturfyrirtæki franska bílaframleiðandans Renault síðastliðin 23 ár. Sala á Dacia-bílum stendur undir 10% af öllum útflutningi Rúmena. Dacia-bílarnir hafa verið framleiddir frá árinu 1966. Nýjustu bílarnir eru framleiddir í verksmiðjum Renault.

Erna Gísladóttir, stjórnarformaður og aðaleigandi BL, segir í samtali við vb.is bílamarkaðinn vera að stækka og gólfplássið hjá BL minnka á Sævarhöfðanum af þessum sökum.

Þetta er þó ekki eina breytingin hjá BL því fyrirtækið vígir nýtt umboð fyrir Hyundai-bíla í Kauptúni í Garðabæ í fyrramálið. Tilfærslan er að hluta til að ósk Hyundai, sem vill að umboðið standi sér.

Erna bendir á tilefni sé til flutningsins, ekki síst þar sem Hyundai-bílafloti landsmanna sé orðinn ansi stór á þeim 20 árum sem liðin eru síðan fyrsti Hyundai-bíllinn var fluttur til landsins.

Í nýju húsnæði Hyundai-umboðsins í Kauptúni verður allt tengt bílunum undir einu þaki; viðgerðarþjonusta, verkstæði og varahlutasala.

Í næsta nágrenni við Hyundai-umboðið er Toyota-umboðið. Erna segir það ekki trufla.

„Því fleiri því betri, það verður gott að fara rúntinn á milli umboðanna,“ segir hún.

Nýlegur bíll frá Dacia sem kallast Lodgy.