Erna Bjarnadóttir er nýr stjórnarformaður Nýja Kaupþings. Kemur hún í stað Huldu Dóru Styrmisdóttur sem víkur sæti úr stjórninni. Auður Finnbogadóttir víkur einnig úr stjórn.

Tveir nýir koma inn í stjórnina frá skilanefnd Kaupþings, þeir Jóhannes Rúnar Jóhannsson lögmaður og Theodór S. Sigurbergsson endurskoðandi.

Erna var áður í stjórn Nýja Kaupþings. Jónína A. Sanders, sem var í varastjórn flyst í aðalstjórn.

Þar með hefur verið fjölgað um einn í stjórn. Auk þeirra Ernu, Jóhannesar, Theodórs og Jónínu sitja í stjórninni þær Helga Jónsdóttir og Drífa Sigfúsdóttir.

Verkefninu lokið

Í tilkynningu frá Nýja Kaupþingi er haft eftir Huldu Dóru að á þessum tímamótum, þegar samningar hafi verið undirritaðir milli ríkis og skilanefndar um endurfjármögnun bankans, telji þær Auður að því verkefni sé lokið sem þeim hafi verið falið af hálfu ríkisins.

Þær hverfi því nú til annarra starfa. „Við óskum bankanum og nýrri stjórn góðs gengis og teljum fullvíst að nýr kafli sé að hefjast í sögu bankans," er haft eftir Huldu Dóru í tilkynningu.

Erna Bjarnadóttir er forstöðumaður félagssviðs Bændasamtaka Íslands.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Í fyrri frétt var ekki rétt farið með nöfn  nýrra manna í stjórn af hálfu skilanefndar Kaupþings. Beðist er velvirðingar á því.