*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Fólk 13. júní 2018 13:22

Erna Blöndal nýr stjórnarformaður UNICEF

Erna tekur við af Guðrúnu Ögmundsdóttur sem lætur af embætti til að taka sæti í nýrri borgarstjórn Reykjavíkur.

Ritstjórn
Erna Kristín Blöndal, nýr stjórnarformaður UNICEF á Íslandi.
Aðsend mynd

Erna Kristín Blöndal var í dag á ársfundi UNICEF á Íslandi skipuð sem nýr stjórnarformaður landsnefndar UNICEF. Hún tekur við formennskunni af Guðrúnu Ögmundsdóttur, sem lætur af embætti í stjórn UNICEF á Íslandi til að taka sæti í nýrri borgarstjórn Reykjavíkur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá UNICEF á Íslandi.

Erna er lögfræðingur og hefur gengt stöðu framkvæmdastjóra Norrænnar stofnunar um fólksflutninga. Samhliða því hefur hún stundað doktorsnám í lögfræði á sviði mannréttinda. 

Á ársfundinum tóku tveir nýir meðlimir sæti í stjórn, þær Guðrún Hálfdánardóttir og Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir. Guðrún er blaðamaður hjá Mbl.is og hefur fjallað mikið um málefni barna. Lilja Hrund er nýútskrifuð úr Verzlunarskóla Íslands og er fulltrúi Ungmennaráðs UNICEF í stjórn.

„Um leið og við hjá UNICEF á Íslandi bjóðum Guðrúnu og Lilju velkomna í hópinn og tökum á móti nýjum stjórnarformanni þá kveðjum við hana Guðrúnu Ögmundsdóttur með miklum söknuði. Við þökkum henni fyrir frábært starf og ómetanlegan stuðning í gegnum árin. Það hafa verið forréttindi að vinna með henni og við vitum að hennar miklu kostir og eldmóður munu nýtast vel á nýjum vettvangi,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi í tilkynningunni.