Erna Gísladóttir, fyrrverandi forstjóri B&L, hefur gengið frá kaupum á sínu gamla bílaumboði auk Ingvars Helgasonar. Það er Miðengi, dótturfélag Íslandsbanka, rekstrarleigufyrirtækin SP Fjármögnun og Lýsing sem selja umboðin.

Bílaumboðin eru undir eignahaldsfélaginu BLIH og eru umboðsaðilar fyrir Nissan, Subaru, Hyundai, BMW, Land Rover, Renault, Opel, Isuzu og Irisbus.

Afi Ernu, Guðmundur Gíslason, var einn af stofnendum B&L árið 1954. Fjölskylda hans eignaðist fljótlega allt fyrirtækið og var það óslitið í hennar eigu fram til ársins 2007 þegar það var selt.

Gísli Guðmundsson, faðir Ernu, stýrði B&L í áratugi þar til Erna tók við stýrinu. Hún var forstjóri fyrirtækisins í 17 ár eða fram til ársins 2008. Þá hætti hún sem forstjóri og stofnaði meðal annars fjárfestingarfélagið Egg sem m.a. kom að kaupum á Sjóvá fyrr á þessu ári.

Kröfuhafar bílaumboðanna tóku B&L og Ingvar Helgason yfir í fyrra og stofnuðu BLIH utan um reksturinn í febrúar á þessu ári.