Árni Snævarr, starfsmaður Sameinuðu þjóðanna og fyrrverandi fréttamaður, og Erna Bjarnadóttir, stjórnarmaður í Heimssýn og sviðsstjóri hjá Bændasamtökunum, voru meðal viðmælenda í Vikulokunum á Rás 2 í dag. Þau deildu meðal annars harkalega um Evrópusambandið og sérstöðu íslenskra matvæla.

Árni sagði að innviðir Grikklands og Írlands, svo dæmi væru tekin, væru allir byggðir af Evrópusambandinu. Hann sagði að Erna og hennar félagar í Heimssýn vildu hafa fjörutíu starfsmenn hjá Bændasamtökunum, en Evrópusambandið hafi bent á að það væri ekki í lagi.

Erna sagði að það væru ekki einu sinni fjörutíu starfsmenn hjá Bændasamtökunum og bað Árna að gæta þess að fara með rétt mál. Árni sagðist hafa talið starfsmennina á heimasíðu Bændasamtakanna.

Hrunið hefði ekki orðið

„Þið viljið ekki skoða Evrópusambandið eins og er,“ sagði Árni. „Ef við hefðum verið í Evrópusambandinu, ég tala ekki um ef við hefðum haft evruna, þá hefði ekki orðið hrun. Þannig að öll umræða um að færa þetta yfir á íslenskan veruleika í einhverri skildagatíð er mjög undarleg.“

Á meðal þess sem rætt var um í Vikulokum var uppgangur þjóðernishyggju í Evrópu, en Árni sagði ekki þurfa að fara til útlanda til þess að finna dæmi um þjóðernishyggju. „Hvar í heiminum halda menn því fram að það verði stökkbreyting á mönnum við að borða mat frá öðrum ríkjum? Geturðu bent mér á annað ríki þar sem forsætisráðherra myndi halda slíku fram?“

Erna frábað sér þeirri umræðu að kenna sig við þjóðernishyggju. „Það er vitað, varðandi sýklaþolnar bakteríur, að við höfum algjöra sérstöðu í því, Ísland og Noregur.“

„Er ég þá öðruvísi maður en þú af því ég hef búið erlendis?“ spurði Árni.

Erna sagði að hann væri það ekki. „En það er hins vegar satt, og er vísindalega búið að sýna fram á það, að það er önnur staða í þessum málaflokki hér á Íslandi, hvernig sem forsætisráðherra orðar það.“

Árni: „Og ert þú þá betri manneskja en ég af því þú hefur búið lengur á Íslandi?“

Erna: „Nei.“

Árni: „Það er gott að heyra.“