Erna Gísladóttir, stjórnarformaður Haga, og forstjóri BL og Stefán Árni Auðólfsson lögmaður á LMB Mandat eru á útleið úr stjórn Haga. Erna hefur verið í stjórn félagsins frá árinu 2010 og Stefán Árni frá árinu 2013.

Tilnefningarnefnd félagsins leggur til að Eva Bryndís Helgadóttir, sem starfar hjá LMB Mantant líkt og Stefán taki sæti í stjórninni ásamt Jensínu Kristínu Böðvarsdóttur, hjá Valcon consulting, en hún var framkvæmdastjóri hjá Alvogen árin 2015 til 2019 og framkvæmdastjóri þróunar og mannauðs hjá Landsbankanum árin 2010 til 2015. Aðalfundur Haga fer fram þann 9. júní.

Þá er lagt til að Davíð Harðarson, varaformaður stjórnar Haga sitji áfram í stjórninni ásamt Katrínu Olgu Jóhannesdóttur, fyrrverandi formanni Viðskiptaráðs og Eiríki S. Jóhannssyni, stjórnarformanni Samherja, en Samherji er sjötti stærsti hluthafi Haga með 4,22% hlut.

Auk þeirra gáfu Albert Jónsson, sjálfstætt starfandi viðskiptafræðingur, og Rósalind Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Vélsmiðju Guðmundar ehf., kost á sér í stjórnina.

Ljóst er að tímamót eru að verða hjá Högum. Finnur Árnason, forstjóri Haga, og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, hafa báðir sagt starfi sínu lausu. Þeir hafa báðir starfað hjá Högum vel yfir tvo áratugi. Starfslokin kosta Haga 315 milljónir króna. Finnur Oddsson, forstjóri Origo, hefur verið ráðinn forstjóri Haga og tekur við starfinu í sumar.