Flugfélagið Ernir ætlar að hefja áætlunarflug á Aðaldalsflugvöll við Húsavík frá Reykjavík 15. apríl á næsta ári og bjóða upp á flug í það minnsta fram á haustmánuði, þ.e. út september. Ásgeir Örn Þorsteinsson, sölu- og markaðsstjóri Ernis, segir að ákveðið hafi verið að bjóða upp á þessa möguleika í flugi að vel athuguðu máli. "Það hefur mikill vöxtur einkennt ferðamennsku á þessu svæði undanfarin ár og það er það sem við erum að horfa til, ekki síst. Við bindum vonir við að þessu verði vel tekið og að við getum boðið upp á flug allt árið um kring frá Reykjavík til Húsavíkur."

Samkvæmt áætlun Ernis verður flogið fram og til baka á þriðjudögum, fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum.

Ásgeir segir að Ernir vilji bjóða ferðamönnum og öðrum upp á að fara beint inn á svæðið, sem sé einstakt ferðamannasvæði. "Ferðamenn geta með þessu komist beint inn á einstakt svæði sem hefur mikið aðdráttarafl. Mývatnssveit, Húsavík og Ásbyrgi eru allt staðir sem draga að sér tugir þúsund ferðamanna árlega."