*

sunnudagur, 16. júní 2019
Innlent 11. janúar 2019 10:57

Vilja aðra Dornier vél við þá kyrrsettu

Eigandi Ernis segir að meðan önnur flugfélög skuldi Isavia milljarða hafi einungis mátt refsa félögum í innanlandsflugi.

Ritstjórn
Hjónin Jónína Guðmundsdóttir og Hörður Guðmundsson eigendur flugfélagsins Ernis, við Jetstream skrúfguþotu félagsins á Reykjavíkurflugvelli.
Hörður Kristjánsson

Hörður Guðmundsson eigandi flugfélagsins Ernis, sem sinnir innanlandsflugi hér á landi, segir kyrrsetningu Isavia á nýrri Dornier vél félagsins hafa komið sér illa vegna tímasetningar hennar að því er Vísir greinir frá.

Nú séu nefnilega staddir á landinu erlendir sérfræðingar til að þjálfa starfsmenn félagsins í viðhaldi og umgengni vélarinnar. Hann gagnrýnir jafnframt að félagið sé tekið fyrir meðan aðrir skuldi milljarða. Segir Hörður að flugfélagið Ernir, sem er elsta starfandi flugfélag landsins, glími við lausafjárskort.

Félagið fékk afhenda nýju vélina í byrjun sumars en vegna tafa hjá stjórnvöldum að fá hana skráða hafi fyrsta flug hennar ekki verið fyrr en í desemberbyrjun.

Kaupin ekki félaginu erfið

Staðan að hans sögn er þó ekki verri en svo að Ernir stefnir að því að fá aðra Dornier vél til landsins fyrir næstkomandi vor. Hörður segir öðru nær en að félagið sé á leiðinni að fara á hausinn, og segir hann aðspurður að kaupin á vélinni hafi ekki verið félaginu erfið.

„Nei, kaupin voru mjög létt. En skráningarferlið tók töluverðan tíma og við misstum af sumrinu, sem gerði það að verkum að lausafjárstaðan varð verri en ætlað var,“ segir Hörður sem segir ástandið tímabundið, félagið hafi greitt öll sín gjöld og skuldir í nærri því hálfa öld og í fyrsta sinn sem vél þess sé stöðvuð.

„En það er í sjálfu sér engin vá, ef svo má segja, fyrir dyrum, þó að vél stoppi einhvern tíma. En slæm umræða sem gæti skapast þegar svona aðgerðir eru gerðar þær geta skaðað fyrirtækið meira heldur en þó að vél stoppi einhvern tíma.“

Bendir á milljarða skuldir sem ekki hafi leitt til stöðvunar

Flugvélin sem ekki er í áætlunarflugi enn sem komið er fékkst afhend á ný til viðhalds og vinnu þó kyrrsetningin hafi ekki verið afnumin. Sagði Hörður við það tilefni að „Engin WOW væri fyrir dyrum“, hjá félaginu, en hann gagnrýnir að ekki sé jafnt yfir alla látið ganga.

„Það ferli er búið að taka nokkra mánuði. Þetta er lítil skuld, en auðvitað stór fyrir lítið fyrirtæki, en það eru önnur fyrirtæki sem skulda milljarða og er ekki búið að stoppa.“ Töluvert var um það fjallað á sínum tíma að Wow air skuldaði um tvo milljarða í lendingargjöld til Isavia, en í yfirlýsingu félagsins sagðist það aldrei hafa skuldað „yfir“ tvo milljarða í lendingargjöld.

„Það mátti ekki stoppa þá. Þá myndi krónan falla um 13 prósent og öll ferðaþjónustan færi á hliðina, sagði í fréttum“ segir Hörður sem segir félagið hafa keyrt of margar ferðir á staði úti á landi miðað við eftirspurn. „En það er líka ferðaþjónusta á landsbyggðinni og við erum að aðstoða hana með því að koma til hennar farþegum og fólki um allt land.“

Einungis tvær aðrar vélar hafa verið kyrrsettar hér á landi vegna skulda, það er vélar Air Berlin og tékkneska félagsins Holiday Czech Airlines sem var á vegum Iceland Express.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is