Erró er væntanlegur til landsins og mun árita bókina Erró í tímaröð - líf hans og list laugardaginn 19. janúar kl. 14:00 í Listasafni Reykjavíkur - Hafnarhúsi. Með hverri seldri bók fylgir áritað og númerað grafíkverk sem hægt er að fella inn í bókina. Um tvenns konar grafíkverk er að ræða en einungis 100 eintök eru gerð af hvoru verkinu fyrir sig. Í för með Erró er höfundur bókarinnar, Danielle Kvaran listfræðingur, sem búsett er í Noregi, og mun hún einnig árita bókina.

Þegar Viðskiptablaðið talaði við Sigurð Pálsson, þýðanda bókarinnar, og spurði hann hvort Erró væri ekki franskur listamaður, sagði Sigurður að þótt Erró hefði allan sinn feril verið búsettur í Frakklandi, þá væri hann íslenskur listamaður og væri í auknum mæli kynntur sem slíkur um allan heim; hann benti á að búseta breytti ekki þjóðerni fólks. Til dæmis var Van Gogh Hollendingur þótt hann hafi verið búsettur í Frakklandi og verið gott dæmi um franska skólann í myndlist þess tíma. Þannig er Erró íslenskur málari og kynntur sem slíkur erlendis. Það var t.d. haldin gríðarlega stór Erró-sýning í tengslum við opnun útibús Glitnis í Kína. Loksins virðast menn í íslenska viðskiptalífinu vera að átta sig á því að listir og menning eru í raun skilvirkasta og skynsamlegasta kynning á hvaða landi sem er.

Þegar til lengri tíma er litið eru listir og menning veitandi aðilinn, ekki þiggjandi, og eiga því að bera höfuðið hátt. Fjárstuðningur við listir og menningu er skynsamlegur, eðlilegur, sjálfsagður. Frakkar hafa vitað þetta öldum saman. Góð kynning á menningu þeirra leiðir á endanum alltaf til aukinna viðskipta þótt það geti tekið tíma; leiðir til þess að Peugeot-bílar seljast betur eða ilmvötnin þeirra eða hvaðeina."

Aðspurður um stöðu Errós, sem var sterk þegar poppbylgjan reið yfir heiminn, segir Sigurður stöðu hans hafa styrkst til muna síðan þá.

"Hann er bara kominn í þá stöðu að vera einhver sérstæðasti og mikilvægasti málari á síðari hluta 20. aldar. Í myndveröld hans er öll öldin. Í myndum hans ægir saman öllum myndum og allri myndskynjun 20. aldarinnar. Það er enginn sem er að gera nákvæmlega þetta. Hann virkar miklu einstakari, virðist mörgum, núna heldur en lengi framan af ferlinum þegar hann var spyrtur saman við popp-listamennina, sem höfðu gjörólíka aðferð og hugsun," segir Sigurður Pálsson.