Samtök banka og verðbréfafyrirtækja hefur gefið út bækling sem skýrir frá helstu atriðum nýrra laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, en þar kemur fram að fjármálafyrirtækjum er nú skylt að afla frekari upplýsinga um viðskiptavini sína en áður.

Í bæklingnum sem ber heitið ?Ert þú örugglega þú?", eru tekin til helstu atriði laganna (nr.64/2006) sem koma við viðskiptavini fyrirtækjanna.

Meðal þess sem þar kemur fram er að við stofnun viðskipta beri að spyrja ,,hvort fyrirhuguð viðskipti fari fram fyrir hönd annars en viðskiptavinarins", ,,hver sé tilgangur viðskiptanna og um hvað þau snúist" og loks ,,hver sé uppruni þeirra fjármuna sem um ræðir í fyrirhuguðum viðskiptum."

Þetta er þó aðeins það eftirlit sem kemur viðskiptavininum beint við, því samkvæmt lögunum er fjármálastofnunum skylt að hafa reglubundið eftirlit með viðskiptavinum sínum og uppfæra upplýsingar um viðskiptamenn og afla frekari upplýsinga í samræmi við lögin "eftir því sem þörf krefur."

Í fimmta kafla laganna, 17. grein segir:
"Tilkynningarskyldum aðilum er skylt að láta athuga gaumgæfilega öll viðskipti sem grunur leikur á að rekja megi til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka og tilkynna lögreglu um viðskipti þar sem slík tengsl eru talin vera fyrir hendi.

Gildir þetta einkum um viðskipti sem eru óvenjuleg, mikil eða flókin, með hliðsjón af venjubundinni starfsemi viðskiptamannsins eða virðast ekki hafa fjárhagslegan eða lögmætan tilgang.

Samkvæmt beiðni lögreglu, sem rannsakar peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka, skulu tilkynningarskyldir aðilar láta í té allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru taldar vegna tilkynningarinnar."