Úttekt Ríkisendurskoðunar á greiðslum lögmannsreikninga Más Guðmundssonar seðlabankastjóra vegna málaferla hans við bankann er langt komin. Ekki er útilokað að niðurstöður úttektarinnar verði afhentar bankaráði Seðlabankans í lok mánaðar, samkvæmt upplýsingum frá Ríkisendurskoðun.

Kostnaður upp á rúmar sjö milljónir

Það var fulltrúaráð bankaráðsins sem ákvað á fundi sínum 13. mars síðastliðnum að fela Ríkisendurskoðun að gera úttekt á greiðslunum. Málaferli Más gegn bankanum snerist um kröfu hans um launaleiðréttingu en laun hans voru lækkuð eftir að hann var skipaður seðlabankastjóri sumarið 2009.

Bankinn greiddi reikninga Más frá lokum árs 2011 og fram á mitt síðasta ár. Reikningurinn nam í heildina rúmar 7,4 milljónir króna. Þar af var kostnaður vegna lögfræðivinnu 4,1 milljónir króna.

Auk þess sem Ríkisendurskoðun átti að vinna úttektina þá var henni jafnframt falið að hvort farið hefði verið að lög­um og regl­um við meðferð máls­ins.

Könnun Ríkisendurskoðunar var í tveimur hlutum. Fyrri hlutinn var skoðun á því hvort flokka mátti kostnað Seðlabank­ans vegna mál­sókn­ar Más gegn bank­an­um sem rekstr­ar­kostnað. Flýta þurfti þeirri vinnu til að ljúka gerð ársreiknings Seðlabankans.