Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði framleiðir um 12-30 báta á ári og undanfarin ár hafa um 50%-70% af heildarveltu fyrirtækisins komið frá útflutningi á bátum. Nú síðast sögðu Fiskifréttir frá því að fyrirtækið hefði selt bátinn Öldu Lind til Noregs. „Sá bátur er kannski fimm- til sjöfalt stærri en minnstu bátarnir sem við framleiðum, þannig að það getur verið villandi að horfa bara á fjölda seldra báta. Það hefur minnst að segja fyrir veltu fyrirtækisins,“ segir Högni Bergþórsson, framkvæmdastjóri Trefja.

Hann segir umfang útflutnings í heildarveltu fyrirtækisins vera mismunandi milli ára. „Það fer mikið eftir ástandinu hér heima. Það er þannig að annað hvort er mikil fjárfesting í sjávarútvegi á Íslandi eða bara ekki nein.“

Högni segir að Noregur sé mikilvægt markaðssvæði fyrir fyrirtækið, en einnig selji Trefjar báta til Bretlands, Frakklands, Írlands, Grænlands og fleiri landa. Hann segir að í raun sé Evrópa heilt yfir markaður fyrirtækisins. Í fyrra greindi vb.is frá því að fyrirtækið hefði selt bát til Vatopedi-klaustursins á Athos skaga í Grikklandi. „Við erum að smíða annan bát fyrir annað klaustur á skaganum, en ólíkt fyrri bátnum er þessi ekki hugsaður til fiskveiða, heldur er þetta lítill farþegabátur.“

Þá er fyrirtækið núna að smíða báta fyrir norska olíuiðnaðinn. „Þetta eru þjónustbátar sem notaðir eru á þessum stóru skipum sem sinna borpöllunum. Bátarnir sjálfir koma í raun aldrei sjálfir í land.“

Hvað framtíðina varðar segir Högni að lífið sé barátta og ekkert sé gefið eftir frekar en í öðrum rekstri. „Við erum stöðugt að berjast og markaðssetja okkur. En við erum bjartsýnir og áhuginn er mikill, enda er leiðin bara niður á við ef afstaðan er önnur.“