Í gær fjallaði Viðskiptablaðið um að franska persónuverndarstofnunin hefði veitt Facebook lokaviðvörun og þriggja mánaða frest til að hætta söfnun og notkun persónuupplýsinga hjá þeim sem eru ekki skráðir notendur.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar segir í samtali við Viðskiptablaðið að ekki sé verið að skoða sambærileg mál hérlendis.

Hún segir að ef um er að ræða mál sem fjalla um vinnslu persónuupplýsinga af hálfu Facebook, þá fellur slík vinnsla almennt utan gildissviðs laga um um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Persónuvend hefur leiðbeint einstaklingum að leita til persónuverndarstofnunar Írlands, þar sem starfsstöðvar Facebook eru á Írlandi. Ef hins vegar er um að ræða vinnslu á Facebook af hálfu einstaklings sem notar tæki og búnað hérlendis, t.d. ef  Íslendingur birtir viðkvæmar persónuupplýsingar án samþykkis, þá gæti slík vinnsla fallið innan gildissviðs laganna

Helga segir einnig að samtals fimm ríki Evrópu (Frakkland, Belgía, Holland, Þýskaland og Spánn) hafi hafið málarekstur gegn Facebok vegna breytinga á notendaskilmálum sem samþykktir voru fyrir rúmu ári. Síðan þeir voru samþykktir þá hefur fyrirtækið safnað upplýsingum um notendur sem heimsækja síðuna, þrátt fyrir að þeir séu ekki skráðir notendur á samfélagsmiðlinum.

„Persónuvernd fyrirhugar ekki aðgerðir gegn Facebook hér á landi vegna þessarar söfnunar persónuupplýsinga, þar sem fyrirtækið hefur ekki staðfestu hér á landi, þ.e. hefur ekki stofnað dótturfélag hér, og fellur því ekki undir landfræðilegt gildissvið laganna“

Þau lög sem Helga vísar til eru lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Helga segir einnig að Persónuvernd hafi ekki fengið formlega kvörtun sem snýr að þessu álitaefni og hafi því úrskurðað um það sérstaklega. Vinnsla persónuupplýsinga, m.a. á Facebook, þarf ætíð að byggjast á heimild í lögum. Hún segir þó að Persónuvend hafi borist allmargar fyrirspurnir varðandi vinnslu persónuupplýsinga á Facebook, m.a. sem lúta að notkun á Facebook í skólastarfi, skráningu einstaklinga í hópa, myndbirtingar m.a. af ólögráða einstaklingum, friðhelgisstillingar o.fl.

Helga bendir einnig á skýrslu sem unnin var á norsku persónuverndarstofnuninni árið 2011 um málefni Facebook og að fjöldi álitaefna tendum Facebook hafi verið tekin upp á samnorrænum og evrópskum grundvelli.