Að sögn Ara Edwalds, forstjóra 365 miðla, er unnið að andsvari félagsins við viðbrögðum Samkeppniseftirlitsins vegna fyrirhugaðrar sameingar 365 miðla og Árvakurs.

,,Það liggur fyrir að Samkeppniseftirlitið gæti hugsað sér að leyfa ákveðna hluti með skilyrðum. Menn þurfa að meta hvort það sé þess virði,” sagði Ari en nú eru tæplega tveir mánuðir liðnir síðan óskað var eftir heimild til sameiningar þessara tveggja stærstu fjölmiðlaeininga landsins sem ekki eru í ríkiseigu.

Ætlunin var að ná fram fullri sameiningu dagblaðaútgáfunnar, bæði hvað varðar eignarhald og útgáfu, þó stefnt væri að því að blöðin yrðu í sérgreindum dótturfélögum. Um leið var ætlunin að sameina prentun og dreifingu Fréttablaðsins og Morgunblaðsins. ,,Við vorum að horfa til þess að slá þessu öllu saman. Það er ljóst að við teljum mjög mikilvægt að ná hagræðingu í þessum geira. Hún þarf að nást og hörð skilyrði geta spillt fyrir því.”

- Er það rétt að Fréttablaðið gæti sparað 400 milljónir á prentun og dreifingu?

,,Þessi tala hringir engum sérstökum bjöllum í mínum huga. Heildarávinningurinn til lengri tíma, af því að sameina prentun og dreifingu, er meiri á ári. Tímabundið gæti hins vegar falist í þessu ákveðinn kostnaður,” sagði Ari.

Sýn eignarhaldsfélag keypti 356 miðla í upphafi nóvember og er í dag eini hluthafi fjölmiðlafélagsins. Unnið er að því að fá fleiri hluthafa inn í félagið. Ari sagðist gera ráð fyrir að þegar endanlegur hluthafalisti Sýnar lægi fyrir yrðu félögin sameinuð enda engin sérstakur tilgangur að reka eignarhaldsfélag utan um fjölmiðlahlutann til lengri tíma.