Núgildandi lög um innistæðutryggingar tóku gildi í byrjun árs 2000. Samkvæmt þeim eru innlán okkar tryggð, að minnsta kosti upp að 1,7 milljónum króna.

Í ljósi núverandi markaðsaðstæðna er fróðlegt að vita hvað verður um innlán einstaklinga, ef til þess kæmi að banki eða sparisjóður hér í landi yrði gjaldþrota og gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Lög til staðar

Hinn 1. janúar árið 2000 tóku gildi lög um innistæðutryggingar. Markmið laganna er að veita innistæðueigendum í viðskiptabönkum og sparisjóðum lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum innlánastofnunarinnar.

Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta er sjálfseignarstofnun sem starfar samkvæmt þessum lögum og lýtur eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Allir viðskiptabankar, sparisjóðir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu eru aðilar að sjóðnum. Sjóðurinn starfar í tveimur deildum með aðskilinn fjárhag – innistæðudeild og verðbréfadeild. Innistæðudeild sjóðsins geymir fjárhæðir sem notast sem greiðsla til innlánaeigenda í bönkum og sparisjóðum ef til vanefnda kæmi af hálfu innlánastofnunar. En hversu stór hluti innlána eru tryggður?

1,7 milljónir bættar að fullu

Í lögunum kemur fram að heildareign innistæðudeildar sjóðsins skuli að lágmarki nema 1% af meðaltali tryggðra innistæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári. Hvaða þýðingu hefur það fyrir innlán heimilanna? Samkvæmt útreikningum blaðamanns var meðaltal heildarinnlána heimila í landinu 543 milljarðar á síðustu tólf mánuðum, talið frá júlí 2007 til júní 2008. Þeim útreikningum ber að taka með örlitlum fyrirvara því ekki fengust upplýsingar um hversu stór hluti innlána flokkaðist undir „tryggðar innistæður“. Samt sem áður gefur þetta einhverja vísbendingu um hversu stór upphæð er til staðar í Tryggingarsjóði innstæðueigenda. Miðað við þessa tölu ættu um 5 til 6 milljarðar að liggja í sjóðnum.

Ef viðskiptabanki eða sparisjóður er ekki fær um að inna af hendi greiðslu að andvirði innistæðu sem viðskiptavinur hefur krafið hann um, fær viðskiptavinurinn innistæðu sína greidda úr sjóðnum. Með innistæðu er átt við eign sem er tilkomin vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi. Ef eignir tryggingarsjóðsins duga ekki til að greiða heildarfjárhæð tryggðra innistæðna skal greiðslu úr sjóðnum skipt þannig milli innistæðueigenda að samanlögð heildarinnistæða hvers innistæðueiganda, allt að 1,7 milljónir króna, er bætt að fullu en það sem umfram er hlutfallslega eftir því sem eignir sjóðsins hrökkva til. Tryggingarfjárhæðin miðast við heildarinnistæðu eiganda en ekki hvern einstakan reikning. Innlánseigendur geta því verið nokkuð rólegir – því ef svo vill til að banki eða sparisjóður getur ekki staðið við skuldbindingar sínar – þá kemur sjóðurinn til bjargar.