"Oft eru menn að býsnast yfir olíusjóði Norðmanna sem er stór. Sjóðurinn stóð í 1.016 milljörðum norskra króna um síðustu áramót en miðað við gengi norsku krónunnar á móti þeirri íslensku á þeim tíma jafngildir það 2,3 m.kr. á hvern Norðmann. Norðmenn ætla að nota sjóðinn til að fjármagna lífeyrisgreiðslur framtíðarinnar en þar í landi er gegnumstreymiskerfi og lítil sjóðasöfnun í lífeyriskerfinu fyrir utan olíusjóðinn. Norðmenn eru því með lífeyrissjóðskerfi sem er ólíkt okkar," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Þar er bent á að eignir íslensku lífeyrissjóðanna stóðu í 992 mö.kr. um síðustu áramót. Reiknað á hvern íbúa er þetta um 3,4 m.kr. eða tæplega helmingi hærri fjárhæð en felst í olíusjóði Norðmanna. "Af samanburðinum sést að þrátt fyrir að mikið sé rætt um ríkidæmi það sem Norðmenn eiga í olíusjóði sínum þá er það í raun minna reiknað á hvern mann en það sem við eigum í okkar lífeyrissjóðum," segir í Morgunkorninu.