Íslendingar hafa undanfarin ár verið meðal tekjuhæstu þjóða heims. Árlega birtir Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) gögn þess efnis og sýna nýjustu tölur að meðal þrjátíu aðildarríkja - helstu iðnríkja heims - var Ísland það áttunda tekjuhæsta árið 2003. Í útreikningunum er tekið tillit til mismunandi kaupmáttar tekna í ólíkum löndum. Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að margt bendi til þess að í ár verðum við í 2. sæti á eftir Lúxemborgurum.

"Árið 2004 var landsframleiðsla á mann hér á landi, að teknu tilliti til mismunandi kaupmáttar í ólíkum löndum, kominn í tæplega 33 þús. dollara og hafði hækkað um ríflega 11% á milli ára vegna mikils hagvaxtar hér á landi og gengisþróunar. Líklegt er að þetta hafi fleytt okkur nokkuð ofar á listann en næstir fyrir ofan okkur 2003 voru nágrannar okkar Danir og síðan Svisslendingar og þá Kanadamenn. Allar þessar þjóðir voru tiltölulega nálægt okkur í tekjum 2003 og má líkur að því leiða að við höfum farið yfir þær í fyrra. Líklega vorum við það í fimmta sæti listans á eftir Írum sem hafa klifrað hratt upp listann undanfarin ár sökum mikils hagvaxtar þar í landi. Fyrir ofan okkur auk Íra eru þá Norðmenn, Bandaríkjamenn og Lúxemborgara en þeir síðast nefndu eru langt fyrir ofan aðra með yfir 50 þús. dollara í landsframleiðslu á mann," segir í Morgunkorni.

Þar er ennfremur bent á að horfur eru á talsvert miklum hagvexti hér á landi í ár. Nýleg spá Seðlabankans hljóðaði upp á 6,4% hagvöxt sem er meira en spáð er í flestum nágrannaríkjum okkar. Einnig hefur krónan hækkað mikið undanfarið. Haldist krónan þetta sterk má telja líklegt að Íslendingar muni færa sig enn ofar á lista yfir tekjuhæstu þjóðir heims. Líklega verðum við í ár í öðru sæti á eftir Lúxemborgurum.

"Ofangreinda þróun er vel hægt að túlka sem góðan árangur þjóðarinnar. Mælikvarðinn er hins vegar varasamur og verður á það að líta þegar samanburðurinn er skoðaður. Lúxemborg hefur oft verið nefnt sem dæmi um hversu hættulegur mælikvarði landsframleiðsla á mann getur verið. Talið er að um 90 þúsund manns komi daglega yfir landamærin frá Þýskalandi, Frakklandi, Belgíu og Hollandi til Lúxemborgar til að vinna. Þetta hækkar mælda landsframleiðslu Lúxemborgara sem eru 450 þúsund talsins. Ef vinnuaflinu sem daglega kemur yfir landamærin væri bætt við íbúafjölda Lúxemborgar yrði landsframleiðsla á mann þar mun lægri. Oft hefur verið bent á að ástæður þess að Ísland er ofarlega á þessum lista er fyrst og fremst sú staðreynd að hér er stærri hluti þjóðarinnar á vinnumarkaði en í flestum örðum OECD ríkjum. Kemur þar til að mjög stór hluti þjóðarinnar er á vinnufærum aldri og atvinnuþátttaka kvenna er há. Landsframleiðsla á vinnustund, sem er mælikvarði á þau verðmæti sem landinn skapar á hverri stund sem hann er í vinnunni, er þannig ekki há í alþjóðlegum samanburði," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.