Sameiningarviðræður Landsbankans og fjárfestingafélaganna Straums og Burðaráss hafa staðið um helgina og eru á lokastigi. Greint var frá þessu í kvöldfréttum Sjónvarpsins. Eigið fé nýs félags verður nálægt 200 miljörðum króna og það á þriðjungshlut í Íslandsbanka.

Samkvæmt heimildum fréttastofu Sjónvarpsins hafa viðræður staðið alla helgina. Þær hafa snúist um eignarhaldið en nöfn félaganna munu haldast. Í frétt sjónvarpsins kom fram að búist er við að tilkynning verði send Kauphöllinni í fyrramálið.

Sameiningin á að skila stækkuðum efnahag og sterkari einingu. Eigið fé félaganna þriggja er nú tæpir 200 miljarðar. Hagnaður Landsbanka, Straums og Burðaráss var mjög góður á fyrri hluta ársins. Landsbankinn hagnaðist um 11 miljarða eftir skatta, Straumur um tæpa 8 miljarða, sem var 140% hækkun frá árinu áður, og hagnaður Burðaráss á fyrri hluta ársins var rúmir 24 miljarðar sem er einn mesti hagnaður íslensks fyrirtækis fyrr og síðar.

Þessi 3 félög hafa öll tengst þeim átökum sem staðið hafa um eignarhald Íslandsbanka síðustu misserin og mögulega sameiningu Lands- og Íslandsbanka, en það er mikið áhugamál Landsbankamanna. Straumur á nú ríflega 21% hlut í Íslandsbanka og Burðarás um 8% hlut þannig að nýtt félag myndi þá eiga tæplega þriðjungs hlut í Íslandsbanka segir í frétt Sjónvarpsins.