Ölgerðin á í deilum við fjármögnunarfyrirtækið Lýs­ingu vegna kaupa á bílum í bíla­flota félagsins. Málið er rekið fyrir dómstólum. Heyra má á Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra Ölgerðarinnar, að málið hrjáir hann.

„Þeir hjá Lýsingu hafa verið mjög óbilgjarnir í sinni afstöðu,“ segir Andri Þór aðspurður um þetta.

„Við erum yfirleitt með bílaflota upp á um 100 bíla en núna erum við með um 40 ónotaða bíla sem við fáum ekki að selja vegna þess að við eigum í deilum við Lýsingu. Við höfum boðist til þess að selja bílana og leggja söluandvirðið til hlið­ar inn á bundinn reikning þangað til að leyst verður úr því máli fyr­ir dómstólum – en fáum það ekki í gegn. Í sjálfu sér er ekkert óeðli­legt við það að fá úrskurð dóm­stóla þegar upp kemur ágreiningur, en menn ættu nú almennt að bera gæfu til þess að geta unnið saman á meðan. Það er hvorugum aðilum til hagsbóta að láta 40 bíla, sem lík­lega eru metnir á um 100 milljónir, grotna niður og rýrna í verði. Það er hvorugum aðilanum í hag.“

Andri segir nýjasta út­spil Lýsingar í þessu máli hafa ver­ið að bjóða Ölgerðinni að taka lán hjá félaginu til að kaupa nýja bíla í flotann.

„Í raun og veru er þetta gal­in afstaða og það yrði fróðlegt að sjá hvernig Samkeppniseftirlitið bregst við svona vinnubrögðum,“ segir hann.

Andri Þór er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta nálgast það og blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.