Hópur innan stjórnar Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, og innan Hvatar, félags sjálfstæðiskvenna, er ósáttur við þá hugmynd að leiðtogaprófkjör verði haldið fyrir komandi borgarstjórnarkosningarnar næsta vor. Ingvar Smári Birgisson, formaður Heimdallar, segir í samtali við Fréttablaðið, það langsigurstranglegast ef allir sjálfstæðismenn komi að gerð listans. Lögð verði tillaga þess efnis að haldið verði almennt prófkjör þar sem allir sjálfstæðismenn fá að kjósa.

Fréttablaðið segir að Vörður hafi í gær fengið álit miðstjórnar flokksins um hvort skipulagsreglur heimili blandaða leið. Sú leið felur í sér að leiðtogi verði kosinn, fulltrúaráðið raði í nokkur næstu sæti og uppstillingarnefnd raði svo afganginum.

Blaðið segir Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, varaformann flokksins, ekki sjá ástæðu til þess að taka fram fyrir hendurnar á fulltrúaráðinu.