Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, gaf í skyn í viðtali sem sýnt verður í sjónvarpi vestanhafs í dag að leit kunni vera hafin að nýjum bankastjóra bandaríska seðlabankans.

Viðtal bandaríska fréttamannsins Charlie Rose við Obama verður sýnt síðar í dag en bútur úr viðtalinu þar sem fjallað er um málefni bandaríska seðlabankans hefur þó þegar verið sýndur. Þar ýjar Obama að því að tími Ben Bernanke, núverandi bankastjóra, sé brátt á enda.

Obama lýkir Bernanke við Robert Muller, forstjóra alríkislögreglunnar (FBI) en Mueller samþykkti fyrir tveimur áru að starfa lengur í ljósi þeirra aðstæðna sem þá voru í landinu. Obama sagði að Bernanke hefði staðið sig mjög vel í starfi en hann hefði, líkt og Mueller, líklega verið í starfinu lengur en hann sjálfur hefði kært sig um eða áætlað upphaflega. Þegar Obama var spurður að því hvort hann myndi skipa Bernanke aftur í embætti kom hann sér hjá því að svara.

Í frétt Reuters fréttastofunnar um málið kemur fram að Obama sé að íhuga ýmsa aðila til að taka við af Bernanke.