Hagvöxtur verður 1,2% á þessu ári, að því er fram kemur í þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka. Þetta er öllu hægari vöxtur en aðrir búast við. Í Peningamálum Seðlabankans í maí kom m.a. fram að gert sé ráð fyrir 1,8% hagvexti í ár. Greining Íslandsbanka segir líkur á hægum vexti hagkerfisins í sögulegu samhengi ef miðað er við 2,5% meðalhagvöxt hér á landi síðastliðin 30 ár. Engu að síður er þetta ögn meiri hagvöxtur en sjá má að jafnaði í viðskiptalöndunum um þessar mundir en þar er spáð 0,8% hagvexti að meðaltali í ár.

Í Þjóðhagsspá Greiningar segir ennfremur að dregið hafi úr væntingum um hagvöxt á þessu ári en reiknað með að vöxturinn glæðist á næsta ári og verði þá 3,1% og 2,7% árið 2015.

Á meðal annarra þátta spáir Greiningin 1,8% vexti einkaneyslu í ár en 2,6% vexti hennar á næsta ári og 2,4% vextir árið 2015. Til grundvallar því er spá Greiningar um vöxt kaupmáttar launa sem reiknað er með að aukist um 2,0% í ár, 2,5% á næsta ári og 2,0% á árinu 2015.

Spá 20,2% vexti í fjárfestingum á næsta ári

Greining Íslandsbanka gerir jafnframt ráð fyrir því að fjárfesting atvinnuveganna dragist saman um 19,7% í ár. Á móti falli hins vegar 18% aukning í fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og 20% aukning í fjárfestingu hins opinbera. Á komandi misserum reiknar Greiningin svo með því að fjárfesting í orkutengdum iðnaði fari á fullt skrið að nýju eftir nokkurt hlé. Er það ein meginforsenda þess að Greining spáir 20,2% vexti í fjárfestingum atvinnuveganna á næsta ári og 10,6% vexti árið 2015. Auk þess reiknar hún með nokkuð hröðum vexti í fjárfestingum í íbúðarhúsnæðis, eða 22,0% á næsta ári og 15,0% á árinu 2015. Mun hækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna, verðhækkun íbúðarhúsnæðis, skortur á nýju húsnæði ásamt hugsanlegri eftirgjöf á skuldum heimila ýta undir íbúðafjárfestingu.