Evrópski seðlabankinn er að nálgast það stig að geta keypt skuldabréf evruríkja. Þau ríki sem gefa skuldabréfin út verða að lúta ákveðnum kröfum bankans, að sögn bankastjórans Mario Draghi.

Bloomberg-fréttaveitan rifjar upp að mánuður er síðan Draghi boðaði kaup á ríkisskuldabréfum skuldsettra evruríkja í því augnamiði að lækka lántökukostnað þeirra. Þetta átti ekki síst við um Spán, sem hefur greitt dýrum dómi fyrir ný lán. Bloomberg segir stjórnvöld á Spáni enn velta því fyrir sér hvort þau vilji lúta kröfum seðlabankans.

Á meðal skilmálanna er að stjórnvöld þurfa fyrsta að óska formlega eftir því að björgunarsjóður Evrópusambandsins kaupi skuldir viðkomandi lands. Að því undangengnu tekur evrópski seðlabankinn upp veskið. Blooomberg hefur eftir Luis deGuindos, fjármálaráðherra Spánar, ráðamenn enn möndla með það hvort landið þurfi á fjárhagsaðstoð að halda eður ei. Á sama tíma fjarar undan landinu.