Íslenski hlutabréfamarkaðurinn hækkaði mikið á síðasta ári eða um 56%. Það sem af er þessu ári hefur hækkunin verið enn meiri, en Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 69% sem er meðal þess mesta í heiminum á þessu ári. Ef horft er á V/H hlutfallið miðað við hagnaðartölur síðustu tólf mánaða þá er hlutfallið lægst á danska hlutabréfamarkaðnum en þar á eftir koma finnski markaðurinn og franski markaðurinn (CAC). Meðaltal V/H hlutfallsins á þeim mörkuðum sem við skoðum miðað við hagnað síðastliðna tólf mánuði er 18,6 en hlutfallið í Úrvalsvísitölunni er 18,3 segir í Vegvísi Landsbankans.

Ef horft er á vænt V/H hlutfall fyrir árið þá er hlutfallið einnig lægst á danska markaðnum en næst kemur norski markaðurinn og svo Úrvalsvísitalan. Þannig að hvort sem við horfum á hagnað síðastliðna tólf mánuði eða hagnaðarspá fyrir árið þá er V/H hlutfall félaga í Úrvalsvísitölunni lægra heldur en meðaltalið á þessum mörkuðum. Út frá þessum mælikvarða lítur ekki út fyrir að innlendur hlutabréfamarkaður sé hátt verðlagður í samanburði við aðra markaði.

"Þegar V/H hlutföllin í Úrvalsvísitölunni eru borin saman við erlendar hlutabréfavísitölur þá verður að taka tillit til þess að árferði á innlendum hlutabréfamarkaði hefur verið mjög gott. Fjármálafyrirtæki vega þungt í Úrvalsvísitölunni og hagnaður þeirra er afar góður á þessu ári. Ef hækkanir Úrvalsvísitölunnar væru í samræmi við hækkanir á erlendum mörkuðum þá væri samanlagður hagnaður félaga í Úrvalsvísitölunni mun lægri, þar sem að gengishagnaður er stórt hlutfall af hagnaði félaganna. Á móti kemur að markaðsverðmæti félaganna væri þá væntanlega minna en engu að síður væri V/H hlutfall íslenska markaðarins töluvert hærra ef gengi íslenskra félaga hefðu ekki hækkað eins mikið og raun ber vitni," segir í Vegvísi.