Fjárfestingafélagið FL Group hefur innleyst eða tryggt sér með öðrum hætti rúmlega 127 milljarða króna til að nýta til fjárfestinga á árinu. Hannes Smárason, forstjóri félagsins, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að fyrirtækið væri að undirbúa næsta ár og að töluvert af verkefnum væri í pípunum. "Við erum að setja okkur í stellingar fyrir næsta ár," sagði Hannes.

Félagið samþykkti í síðustu viku að selja rúmlega 22% eignarhlut sinn í Straumi-Burðarási til hóps fjárfesta, undir forystu Finns Ingólfssonar, og bankans sjálfs. Í viðskiptunum fékk FL Group 28,3 milljarða króna í reiðufé, um 10,2 milljarða króna í bréfum í finnska flugfélaginu Finnair og um 3,6 milljarða í skráðum íslenskum félögum. Eftir viðskiptin jókst hlutur FL Group í Finnair í 22,4%, og er það nú næst stærsti hluthafinn í flugfélaginu á eftir finnska ríkinu, sem á 55,8% hlut.

Hannes segir FL Group ekki hafa áhuga á að gera tilraun til að taka yfir Finnair. "Hins vegar teljum við að finnska ríkið ætti að minnka hluti sinn í félaginu," sagði Hannes. Í samtali við finnska viðskiptablaðið Kauppalehti fyrr í vikunni sagði Hannes fyrirtækið líklega sækjast eftir því að koma manni í stjórn Finnair. "Sæti í stjórn Finnair er góð leið til að fylgjast með Finnair, sem er alþjóðlegt flugfélag með arðbærar flugleiðir til Asíu," sagði Hannes í samtali við Kauppalehti.

Auk þess að innleysa rúmlega 28 milljarða með sölu á bréfum, tryggði FL Group sé nýlega 37 milljarða króna lánalínu frá Barclays-bankanum, sem verður nýtt til að taka stöður í skráðum fyrirtækjum. Fyrirtækið innleysti 26 milljarða króna með sölunni á Icelandair, 13 milljarða þegar félagið seldi eignarhlut sinn í easyJet og fyrr á þessu ári tryggði fyrirtækið sér 250 milljón evra sambankalán, sem samsvarar um 23 milljörðum á núverandi gengi, en lánið er tryggt með veði í eignarhlut FL Group í Glitni.

Hannes sagðist ekki geta tjáð sig nánar um einstök verkefni eða í hvað fjármagnið verður nýtt. Í samtali við Viðskiptablaðið fyrr á þessu ári sagði Hannes að unnið væri að yfirtökum til að styrkja hollenska drykkjarframleiðandann Refresco, en FL Group leiddi rúmlega 460 milljón evra yfirtöku á félaginu í apríl. FL Group tók einnig þátt í kaupunum á bresku stórverslunarkeðjunni House of Fraser ásamt Baugi og fleiri fjárfestum. Formlega var gengið frá kaupunum í síðasta mánuði og nemur heildarvirði viðskiptanna 75 milljörðum króna.