*

fimmtudagur, 14. nóvember 2019
Innlent 26. september 2019 14:33

„Erum að há varnarbaráttu“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir Lífskjarasamninginn verða að halda.

Ritstjórn
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Haraldur Guðjónsson

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, reyndist sannspár á þessum sama tíma í fyrra þegar hann sagði að uppsveiflan hefði náði hámarki og flest benti til þess að hægja færi á vexti hagkerfisins. 

„Ég er þó ekki að spá því að framundan sé verulegur samdráttur í hagkerfinu, síður en svo, en mikilvægt er að hafa í huga að þær hagvaxtarspár sem nú birtast eru allar frekar einsleitar og við höfum séð það áður þegar þjóðarbúið er á þessum stað í hagsveiflunni,“ sagði Halldór Benjamín í viðtali í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri í september 2018. 

Þegar hann er minntur á þessi ummæli nú segir hann að fyrir tólf til átján mánuðum síðan hafi allir hagvísar verið á réttri leið. 

„Á þessum tíma fór ég hringinn í kringum landið og talaði við fjölda fólks, sem er að reka fyrirtæki. Eftir þau samtöl var augljóst að staðan fór versnandi, sem náði síðan hápunkti síðasta vor með falli Wow. Sumarið hefur að mörgu leyti farið í aðlögun eftir þessa miklu uppgangstíma sem við höfum upplifað frá 2011. Svona aðlögun er nauðsynleg en sársaukafull á sama tíma.

Ef við setjum þetta í samhengi við lífskjarasamningana sem undirritaðir voru síðasta vor þá geta fyrirtæki, að meðaltali, staðið undir þeim samningi. Framkvæmd samningsins hefur gengið mjög vel fram að þessu og ég er sannfærður um að verkalýðshreyfingin er sama sinnis. Hins vegar eru fyrirtæki og atvinnugreinar sem standa verr að vígi, það er einfaldlega eðli meðaltala. Aðlögunin mun því koma verst niður á þeim. Mikið hefur verið rætt um ferðaþjónustuna í þessu samhengi. Að mörgu leyti virðist sem viðspyrna hennar sé kröftugri en spár gerðu ráð fyrir, sem er jákvætt. Engu að síður er ljóst að sum ferðaþjónustufyrirtæki eiga erfitt uppdráttar. Að því sögðu þá held ég að tækifæri í ferðaþjónustu til meðallangs og langs tíma séu mikil.

Breyttir framleiðsluhættir vegna tækninýjunga eru einnig að hafa áhrif í sumum atvinnugreinum. Þessi framþróun kallar á minni mannafla en áður en á sama tíma er framleiðslan að aukast, sem og gæðin. Þetta eru eðlilegar breytingar og þróun sem kjarasamningar geta ekki stöðvað. Til framtíðar þurfa kjarasamningar aftur á móti að taka tillit til þessara breytinga.“ 

„Samtök atvinnulífsins hafa gengið frá kjarasamningum við um það bil 95% af sínum viðsemjendum. Lífskjarasamningurinn hefur verið undirstaða allra þessara samninga. Hinn raunverulegi prófsteinn í þróun kjaramála á Íslandi er hvaða tónn verður sleginn í kjaraviðræðum hins opinbera við sína starfsmenn. Að þessu sinni vil ég meina að það sé allt undir í þeim viðræðum. Í lífskjarasamningunum var mörkuð mjög skýr stefna um að bæta hag þeirra sem lægstu launin hefðu.“

Ríkisvaldið liðkaði fyrir samningum á almenna markaðnum með ákveðnum loforðum. Snúa þau meðal annars að skattalækkunum, sem miða sérstaklega að hinum tekjulágu, úrræðum fyrir fyrstu kaupendur fasteigna, sem og lengingu fæðingarorlofs, svo dæmi séu tekin. Þetta eru atriði sem nýtast jafnt fólki á almenna og opinbera vinnumarkaðnum. 

Spurður hvort lífskjarasamningarnir ættu að vera leiðarljósið í samningum á opinbera markaðnum svarar Halldór Benjamín: „Lífskjarasamningurinn verður að marka leiðina fyrir samninga opinberra starfsmanna. Annað er óhugsandi. Ef við einföldum málið og spyrjum okkur að því hvort almenni eða opinberi vinnumarkaðurinn sé betur til þess fallinn að þróa vinnumarkaðinn áfram og marka stefnu sem hagkerfið stendur undir þá er mitt svar afdráttarlaust. Í heilbrigðu hagkerfi þá á almenni markaðurinn að marka stefnuna og opinberi geirinn á að fylgja þeirri stefnu. Sú staða má ekki raungerast að opinberir starfsmenn semji um auknar kjarabætur miðað við það sem samið er um á almennum vinnumarkaði. Í þeirri stöðu er ómöguleiki, sem gengur ekki upp. Nú verða pólitíkusar að standa í ístaðinu sama hvort það er á sveitarstjórnarstiginu eða í gegnum samninganefnd ríkisins,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.