Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands, segir ýmislegt hafa gengið vel í íslensku hagkerfi undanfarin ár. Þó þurfi að huga að þróun útflutningsins og auka áhættudreifingu.

Síðsumars gáfuð þið út ritið „Leiðin að aukinni hagsæld“ þar sem þið rýnduð í efnahagslega framvindu á Íslandi frá útgáfu skýrslu McKinsey um íslenska hagkerfið árið 2012. Hvernig hefur gengið frá þeim tíma?

„Sumt hefur gengið vel, annað síður. Það sem hefur gengið vel er aflétting hafta og uppgjörið við slitabúin. Erlendar skuldir hafa lækkað langt umfram bjartsýnustu spár og við höfum ekki staðið jafn vel á því sviði í áratugi, sem tryggir að vöxturinn hingað til sé sjálfbær en ekki tekinn að láni. Það sem hefur síður gengið vel er þróun útflutningsins. Allur vöxturinn í útflutningi hefur verið í auðlindagreinum en ekki alþjóðageiranum. Alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki hafa staðið í stað frá útgáfu McKinsey-skýrslunnar en auðlindagreinarnar, fyrst og fremst ferðaþjónustan, hafa vaxið hratt.

Við erum því enn háðari náttúruauðlindum heldur en við vorum við útgáfu McKinsey-skýrslunnar, en þar voru skilaboðin samt þau að við þyrftum að dreifa betur útflutningi og leggja aukna áherslu á alþjóðageirann til að geta vaxið til framtíðar. Það eru takmörk fyrir því hvað við viljum virkja mikið og hversu marga ferðamenn við viljum fá svo það bitni ekki á náttúrunni.“

Meiri áhættudreifing í alþjóðageiranum

Hefur þessi ferðamannaflaumur þá bjagað „okkar frammistöðu“ frá útgáfu skýrslunnar?

„Vöxtur ferðaþjónustunnar hefur verið mikill happafengur fyrir Ísland. Hann kom á besta tíma, þegar það var mikið atvinnuleysi og veitti okkur dýrmætar útflutningstekjur sem hafa hjálpað okkur að byggja upp lífskjör á ný. En til framtíðar litið verðum við að horfa til þess að útflutningstekjur séu fjölbreyttari. Í dag stendur ferðaþjónusta undir þriðjungi útflutnings þannig að við erum orðin berskjaldaðri en áður gagnvart áföllum. Við eigum því frekar að varðveita þennan árangur í stað þess að rísa of hratt og hrapa síðan aftur niður eins og okkur hættir svolítið til að gera.

Ef það yrði mikill samdráttur í ferðaþjónustu er hætt við því að krónan myndi lækka hratt, atvinnuleysi myndi aukast og að við fengjum bakslag. Á meðan getum við verið með 100 ólíkar útflutningsgreinar innan alþjóðageirans. Sem dæmi eru Össur, Marel og CCP hver í sinni atvinnugreininni þannig að velgengni eins fyrirtækis tengist ekki endilega velgengni annars. Áhættudreifingin er meiri.“

Hvað er hægt að gera til að styrkja betur stöðu fyrirtækja í alþjóðageiranum?

„Það sem hjálpar alþjóðageiranum er samkeppnishæft rekstrarumhverfi þar sem fyrirtækin sjá sér hag í að starfa á Íslandi þótt þau geti starfað hvar sem er í heiminum. Þar koma inn klassískir þættir á borð við skatta og regluverk en einnig mýkri þættir eins og menntakerfið, aðgengi að mannauði og efnahagslegur stöðugleiki. Við þurfum að horfa á alla þessa þætti þegar við skoðum al- þjóðageirann og nú er það einna helst stöðugleikinn.“

Er einhver sérstök ástæða fyrir því að alþjóðageirinn hefur orðið eftir undanfarin ár?

„Það er erfitt að vita fyrir víst en við erum með ákveðnar tilgátur. Við gerum árlega úttekt á samkeppnishæfni Íslands í samstarfi við IMD háskólann og þar kortleggjum við veikleika og styrkleika Íslands þegar kemur að samkeppnishæfni. Þar sjáum við góða styrkleika í samfélagslegum innviðum en efnahagsleg frammistaða stendur alþjóðageiranum fyrir þrifum. Þar má nefna viðskiptahindranir vegna hafta, þyngra regluverk og sífelldar breytingar á rekstrarumhverfinu, bæði hvað varðar gengi krónunnar en einnig skatta og reglur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .