Margt er ólíkt með stöðu efnahgsmála þegar árin fyrir hrun, einkum 2003 og 2004, eru borin saman við ástandið eins og það er nú. Þetta kemur fram í nýjum markaðspunktum greiningardeildar Arion banka. Í greininni er meðal annars fjallað um hagvöxt og framleiðsluspennu, sem var mun ýktari fyrir rúmum áratug síðan heldur en hann er nú.

„Framleiðsluspenna í hagkerfinu hefur einnig verið að aukast jafnt og þétt frá því í ársbyrjun í fyrra og mun halda áfram að vaxa, gangi spá Seðlabanka Íslands eftir. Fyrir áratug síðan var framleiðsluspennan þó mun meiri en hafði aftur á móti verið að koma úr mun meiri slaka árin 2003-2004 heldur en 2013-2014. Það lítur því út fyrir að hagsveiflan nú sé ekki eins ýkt og áður," segir í markaðspunktum Arion banka.

Skuldir hins opinbera hærri nú en áður

Þá er fjallað um opinberar- og einkaskuldir. „Ein mest áberandi birtingarmynd efnahagshrunsins á Íslandi var of mikil skuldsetning fyrirtækja og einstaklinga, sem varð mjög íþyngjandi eftir að bankarnir, krónan og hluabréfamarkaðurinn féllu árið 2008. Í kjölfarið snarversnaði síðan skuldastaða hins opinbera."

Sé litið til stöðu opinberra skulda nú þá er hún öllu verri en hún var fyrir rúmum áratug síðan og stendur í tæpum 120% af vergri landsframleiðslu, að því er kemur fram í markaðspunktunum. Til samanburðar nam skuldahlutfallið 60-70% á árunum 2003-2004. Hins vegar sé mögulegt að ríkissjóður fái hundruð milljarða stöðugliekaframlag slitabúa föllnu bankanna. Sé miðað við að framlagið nemi 400 milljörðum og að hagvöxtur verði 3,7%, gæti skuldahlutfallið hins vegar lækkað niður í 90% af landsframleiðslu.

Ekki fasteigna- eða hlutabréfabóla

Um eigna- og skuldastöðu heimila og fyrirtækja segir: „Eigna- og skulastaða heimila er aftur á móti orðin mjög keimlík því sem var 2003-2004. Árið 2013 voru eignir íslensks meðalheimilis um 21 m.kr. en skuldir um 10 m.kr. svo eiginfjárhlutfallið nam 53%. Árið 2004 var sama hlutfall 59%. Frá árinu 2013 hefur skulda- og eignastaða heimila og einstaklinga svo batnað enn frekar eins og kom fram í síðasta Fjármálastöðugleikariti Seðlabankans. Þar kom einnig fram að skuldir fyrirtækja sem hlutfall af landsframleiðslu voru 110% í lok árs 2014, sem er lægra en 2004 þegar þær voru 120% af landsframleiðslu."

Þá kemur meðal annars fram að ekki sé hægt að greina bólu á húsnæðis- og hlutabréfamarkaði. Eignaverð hækki nú mun hægar en áður, en engu að síður sé ástæða til að hafa varann á.

Nánari umfjöllun má sjá í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.