Nýopnaði pítsustaðurinn Plúto Pizza við Hagamel hyggst bjóða upp á mikið til horfnar gersemar í íslenskri pizzuflóru, það er 18 tommu pizzurnar, sem og selja sneiðar í New York stíl.

„Grunnhugmyndin er að vera hverfispizzería sem þjónar Vesturbæingum í takeaway, á einfaldan og þægilegan hátt, sem hentar vel fyrir það gríðarlega magn af fjölskyldum sem eru á svæðinu, en svo verðum við líka að selja „slæsur", það er sneiðar.

Þar erum við að elta það sem kallast New York Slice Shop, enda skemmtileg stemning hérna í Vesturbænum, mikið af ungu fólki sem er tilbúið að stoppa stutt við og sækja sér góðan mat. Svo er Ísbúðin hérna við rétt við hliðina á okkur sem er frábært enda mikil traffík í hana og sundlaugin rétt hjá," segir matreiðslumaðurinn Stefán Melsted.

„Við verðum með opið til 10 á kvöldin til að byrja með, og bjóðum upp á pizzur úr deigi sem við búum til frá grunni sem og sósurnar. Síðan er hugmyndin seinna meir að geta útbúið jafnvel ferskt pasta sem fólk geti tekið með sér heim, lasagna, kjötbollur og vera þannig með smá delí fíling. Við ætlum að stilla verðinu í hóf eins og við getum, þó við náum kannski ekki skyndibitastöðunum, við teljum okkur ekki vera í samkeppni við þá enda með allt öðruvísi og betri vöru."

Ekki illt þó búnir að éta á sig gat

Stefán segir að hann og Nikulás Ágústsson, sem er meðstofnandi staðarins, hafi staðið við síðustu vikur og prófað sig áfram með uppskriftir.

„Við erum búnir að éta á okkur gat af pizzum en samt er manni ekki illt á eftir, því þetta er meira svona „home made" fílíngur. Nikulás er deigmeistarinn okkar og höfum við pælt mikið í uppskriftinni því við ætlum ekki að kaupa einhverjar deigkúlur af birgja úti í bæ. Heldur erum við að leggja okkur alla fram hérna og erum því ekki einu sinni með frysti," segir Stefán.

„Við kaupum eitt besta hveitið sem hægt er að fá hérna á markaðnum, það er dýrt, en í staðinn er líf í því. Hveiti er ekki sama og hveiti nefnilega og getum við því notað mjög lítið ger. Við búum til svokallað fordeig til þess að ná betur fram eiginleikunum í þessu lifandi hveiti og látum það lyfta sér í kæli í minnst þrjá daga. Síðan gerum við líka sósuna frá grunni. Við ætlum að vera með 18 tommu pizzur sem ég elska, en hafa verið að hverfa. Það er þessi New York stíll, stórar pizzur og stórar sneiðar, en samt þunnar eins og maður fékk í gamla daga. Síðan er Nikki vinur minni hálfur Sikileyingur, afi hans bakaði alltaf þykkar pizzur í pönnu, þær eru eins og brauð, og ætlum við að prófa að vera með þær líka seinna meir."

Kominn tími á eitthvað nýtt

„Ég er fæddur og uppalinn í Vesturbæ og hef hugsað það í langan tíma að opna hérna stað, en ég hætti öllum afskiptum af Snaps fyrir tveimur árum síðan og kominn tími á eitthvað allt öðruvísi. Birgir Biedvelt tók það alveg til sín, það samstarf gekk ekki upp. Eins og ástandið er núna myndi ég ekki vilja vera með veitingastað þar sem fólk situr inni og fullt af þjónum því það hefur þurft að fækka borðum víðast um helming, ferðamennirnir eru farnir en launin og leigan enn til staðar," segir Stefán Melsted.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Farið er ítarlega yfir framtíðarplön Icelandair nú þegar félagið stefnir á hlutafjárútboð
  • Bjarnheiður Halldórsdóttir formaður SAF er tekin tali um frostaveturinn framundan í ferðaþjónustunni
  • Fjármálastefna, Icelandair og hlutdeildarlán verða á dagskrá þingsins á snörpum fundum í næstu viku
  • Rætt við Harald Aspelund sem er einn þriggja sem kemur að vali á næsta framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar
  • Rætt er við framkvæmdastjóra leigufélaga sem bæði hafa séð leigu í miðbænum lækka hvað mest
  • Áhrif gengisveikingar krónunnar og mögulegur fjármagnsflótti er skoðaður
  • Áherslur Startup Westfjords sem haldið er í þriðja sinn í röð um að fá íslenska þátttakendur vestur
  • Nýr sviðsstjóri endurskoðunar hjá KPMG, Magnús Jónsson, ræðir um ferilinn og áhugann á veiði og útivist
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar kóvitið og geðheilsuna
  • Óðinn skrifar um Þórdísi Kolbrún, Rio Tinto og Samkeppnisstofnunina