*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 26. desember 2017 12:01

Erum í dauðafæri

Forstjóri Kauphallarinnar segir að hægt sé að byggja upp innlenda hlutabréfamarkaðinn meðal annars með skattaívilnunum og skráningu bankanna á markað.

Snorri Páll Gunnarsson
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Haraldur Guðjónsson

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir vannýtt afl vera til staðar á hlutabréfamarkaðnum, en atvinnulífið þarf að hugsa um markaðinn sem tæki til að vaxa. Hægt er að byggja upp markaðinn með aukinni þátttöku almennings í gegnum skattalega hvata og aukinni þátttöku erlendra fjárfesta.

Nú hafa átt sér stað 15 skráningar á Aðalmarkaði og First North frá árinu 2011, en hægt hefur á nýskráningum síðastliðin tvö ár. Hvað útskýrir þá þróun og hvernig má bæta úr skák?

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því, eins og skortur á þekkingu á kostum skráningar í íslensku atvinnulífi og takmörkuð þátttaka almennings og erlendra fjárfesta á markaðnum. Varðandi þekkingarskortinn hefur hugsunin hér á landi verið á þá leið að þú skráir fyrirtæki á markað þegar það er komið í örugga höfn. En það er kolvitlaus leið til að hugsa um markaðinn. Hann á að vera stökkpallur og tæki til að hjálpa fyrirtækjum að vaxa. Hlutabréfamarkaðurinn gæti verið að leika svo miklu stærra hlutverk. Það eru til dæmis 10 til 15 öflug íslensk nýsköpunarfyrirtæki sem gætu hæglega komið inn á First North-markaðinn og sótt sér fjármagn til að vaxa.

Til að mynda eru tveir þriðju fyrirtækjanna sem koma inn á First North-markaðinn á Norðurlöndunum lítil fyrirtæki sem eru rekin með tapi í fyrstu en ná svo að vaxa mjög hratt. Við þekkjum þetta líka frá reynslunni hér á landi; Össur og Marel fóru á markað þegar þau voru mjög smá og hafa náð að stækka gríðarlega með aðstoð markaðarins. Þarna liggur metnaður okkar, að breyta því hvernig fólk hugsar um þennan markað. Litið til framtíðar, þá ættum við að hafa í huga hvernig við ætlum að hjálpa smærri fyrirtækjunum okkar að verða hluti af 300 stærstu fyrirtækjum landsins.

Ef maður lítur til Svíþjóðar, kannski fimm eða sex ár aftur í tímann, þá var hlutabréfamarkaðurinn þar mjög daufur. Það var ekkert um að vera. Í dag er hann einn líflegasti markaður Evrópu. Nýskráningum hefur fjölgað gríðarlega síðastliðin tvö til þrjú ár, sérstaklega lítilla fyrirtækja, en aldrei hafa jafn mörg fyrirtæki verið skráð á First North eins og nú. Markaðurinn verður sífellt alþjóðlegri og það eru miklu fleiri þátttakendur á markaðnum en áður.

Hvernig hefur Svíum tekist að byggja upp sinn hlutabréfamarkað? Ytri þættir hafa gefið þeim byr undir báða vængi, en efnahagsaðstæður í Svíþjóð hafa batnað og óvissa minnkað, og mjög lágt vaxtastig hefur hækkað hlutabréfaverð. Svo hefur hagstjórnin verið stöðug og umgjörð markaðarins verið til fyrirmyndar. Þeir náðu að auka þátttöku almennings með því að innleiða skattaívilnanir árið 2012, svokallaða fjárfestingasparireikninga hjá fjármálastofnunum þar sem fjármagnstekjuskattur er fastur og reiknaður miðað við ríkisbréfavexti með hæfilegu álagi. Þetta gerðu þeir til að beina fjármagni almennra fjárfesta í auknum mæli úr lágvaxtafjárfestingarkostum og yfir í atvinnulífið. Það hefur gefist gríðarlega vel og nú eru Danir með það í undirbúningi að innleiða svipað fyrirkomulag.

Þessar skattaívilnanir gera tvennt. Þær gjörbreyta aðstöðu fyrirtækja til fjármögnunar og einstaklinga til ávöxtunar á sín eignasöfn. Fjárfestingar í atvinnulífinu aukast, sérstaklega í vaxtarfyrirtækjum þar sem mesta atvinnu- og nýsköpun á sér stað, sem er gott fyrir hagkerfið, og einstaklingar eru hvattir til að líta á breiðari fjárfestingarkosti en ella. Þær auka einnig fyrirsjáanleika í skattheimtu.

Það væri reynandi að taka upp þetta fyrirkomulag á Íslandi til að auka þátttöku almennings, bæta fjármagnsflæðið frá sparifjáreigendum og inn í atvinnulífið og þannig byggja upp markaðinn. Beinar fjárfestingar almennings á hlutabréfamarkaði eru aðeins um 4% af markaðnum, meðal annars vegna skorts á trausti, áhættufælni og endurskipulagningu efnahagsreikninga eftir hrun. Óbein þátttaka er meiri í gegnum lífeyrissjóði og verðbréfasjóði. Á Íslandi flæðir sparifé ekki beint inn í atvinnulífið heldur óbeint í gegnum lífeyrissjóðina, sem fjárfesta fyrst og fremst í stærri fyrirtækjum en ekki smærri vaxtarfyrirtækjum. Þetta sést til dæmis á því að smæsta fyrirtækið á aðalmarkaði, Nýherji, er með markaðsvirði upp á rúmlega 12 milljarða króna. Þriðjungur allra skráðra fyrirtækja á Nasdaq mörkuðum Norðurlandanna eru með lægra markaðsvirði en Nýherji. Þar að auki eru 90% allra fyrirtækja á First North á Norðurlöndunum smærri en Nýherji. Þarna eru gríðarleg tækifæri til að byggja upp markaðinn og láta hann þjóna atvinnulífinu og fjárfestum.

Svo mætti auka þátttöku almennings með öðrum leiðum, svo sem gamla íslenska skattaafslættinum eða breytingum á ráðstöfun séreignasparnaðar. Þá mætti huga að varfærnum breytingum á ráðstöfun viðbótarlífeyrissparnaðar. Af hverju getum við til dæmis ekki ráðstafað hluta af okkar séreignasparnaði sjálf í þær fjárfestingar sem okkur sýnist? Mögulega mætti setja eitthvert hlutfall af viðbótarlífeyrissparnaði inn á eigin reikning og ráðstafa að vild.

Síðan vantar fleiri erlenda fjárfesta inn á markaðinn. Vísitölufyrirtækið FTSE gerði nýlega úttekt á íslenska hlutabréfamarkaðnum en við settum okkur í samband við FTSE í viðleitni okkar til að koma íslenskum félögum inn í alþjóðlegar vísitölur á nýjan leik, núna þegar gjaldeyrishöftin eru horfin. Í þeirri úttekt fengum við álit FTSE á því hvað vantar upp á til þess að íslenski markaðurinn teljist meðal þróðustu markaða. Eitt atriði er stærð markaðarins, en hann er of smár. Lykillinn að því að stækka markaðinn er að auka þátttöku erlendra fjárfesta. Þar höfum við horft mikið til skráningar bankanna á markaðinn, en við finnum fyrir því að erlendir fjárfestar hafa áhuga á þeim. Innstreymi af erlendu fjármagni á þessu ári nemur á þriðja tug milljarða og eru erlendir fjárfestar - ýmist verðbréfasjóðir og vogunarsjóðir - um 10% af markaðnum. Maður vill hins vegar hafa þetta hlutfall yfir 50%.“

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér.