*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Innlent 10. júní 2017 13:10

Erum í sterkri stöðu

Jón Ólafur Halldórsson hefur verið forstjóri Olís frá árinu 2014. Hann segir rekstur fyrirtækisins og stöðu þess á eldsneytismarkaði hafa styrkst verulega undanfarin ár.

Snorri Páll Gunnarsson
Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri Olís.
Eva Björk Ægisdóttir

Jón Ólafur Halldórsson hefur setið í forstjórastól Olíuverzlunar Íslands (Olís) frá árinu 2014, en hefur starfað hjá fyrirtækinu í 23 ár. Hann segir rekstur Olís og stöðu þess á eldsneytismarkaði hafa styrkst verulega undanfarin ár, en félagið vinnur að stækkun og þéttingu á dreifineti sínu um þessar mundir. 

„Þetta fer að verða aldarfjórðungur sem ég hef verið hérna hjá Olís. Það er óhætt að segja að hér hafi ég varið stærstum hluta starfsævi minnar. Hér hef ég upplifað góða daga og slæma, eins og gengur og gerist. En það sem ég hef lært mest af mínum tíma í þessum bransa er að þrautseigja, samvinna og sanngirni sé besta leiðin til að ná árangri sem hægt er að byggja á til lengri tíma.“

Jón Ólafur er menntaður véltæknifræðingur frá Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn og MBA frá Háskóla Íslands. Þá hefur hann einnig lokið AMP diplómanámi frá IESE í Barcelona og meistaranámi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Að námi loknu í Kaupmannahöfn árið 1987 sneri Jón Ólafur aftur til Íslands, þar sem hann hóf starfsferilinn í sjávarútvegi.

„Ég fór að vinna hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og var þar í þrjú ár. Í framhaldi af því fór ég til Eimskipafélags Íslands og vann hjá Hafnarbakka sem var dótturfélag félagsins og starfaði ég þar í þrjú ár. Síðan var ég í eitt ár hjá Jarðborunum um það leyti sem það var að feta sín fyrstu spor í einkarekstri. Loks rataði ég hingað til Olís árið 1995. Þar starfaði ég fyrst sem forstöðumaður í deild sem hét þá eldsneytis- og smurolíudeild og var í raun að vinna þar áfram í sjávarútvegi. Það umhverfi þekkti ég mjög vel og kom þekking mín á sjávarútvegi frá árunum í LÍÚ að góðum notum. Síðan tek ég við starfi framkvæmdastjóra árið 1997. Segja má að ég hafi annast sölu- og markaðsmál félagsins þar til ég tek við sem forstjóri árið 2014. Síðan þá hef ég verið að stýra félaginu inn í nýja tíma og eitt af fyrstu verkefnum sem forstjóri var að marka stefnu til 2020 og hefur sú áætlun gengið vel eftir. Við höfum lækkað skuldir og styrkt stöðu félagsins verulega á eldsneytismarkaði undanfarin þrjú ár auk þess sem skipulag félagsins hefur verið straumlínulagað.“

Mest velta í smásölu

Olís sérhæfir sig í sölu og þjónustu með eldsneyti, auk ýmissa nauðsynjavara fyrir bílaeigendur, og vörum til útivistar og ferðalaga. Þá veitir félagið einnig margvíslega þjónustu til sjávarútvegs-, verktaka- og flutningafyrirtækja. Félagið rekur um 40 þjónustustöðvar um allt land undir vörumerki Olís, ásamt 30 sjálfsafgreiðslustöðvum undir vörumerkinu ÓB – ódýrt bensín.

Hvert er rekstrarfyrirkomulag Olís?

„Rekstur Olís skiptist niður á þrjú meginsvið: smásölusvið, fyrirtækjasvið og fjármálasvið. Síðan erum við með mannauðssvið sem þjónar meginsvið­ unum með starfsmannamál, gæða- og öryggismál. Við keyrum þó á tveimur tekjusviðum, sem eru smásalan og fyrirtækjaþjónustan.

Hvernig dreifist veltan yfir þessi rekstrarsvið?

„Smásölusviðið er veltumesta sviðið. Framleiðnin er sterkari þar heldur en á fyrirtækjasviði, en það er þó gott jafnvægi á milli tekjusviðanna. Í seldu magni eldsneytis er umfangið keimlíkt á smá­sölusviði og fyrirtækjasviði.“

Hvaða breytingar hafa átt sér stað hjá Olís eftir að þú tókst við sem forstjóri og hvaða verkefni eru í gangi hjá fyrirtækinu um þessar mundir?

„Eftir hrun var Olís í býsna erfiðri stöðu. Fyrirtækið var skuldsett og í þröngu rekstrarumhverfi og því um miklar áskoranir að ræða. Undanfarin þrjú ár höfum við verið að greiða niður skuldir hægt og bítandi og höfum við náð góðum tökum á rekstri félagsins. Skuldastaðan er orðin mjög vel viðunandi og við erum í raun í góðri stöðu til að stækka með ytri vexti, en við höfum verið að skoða ýmis fjárfestingartækifæri á undanförnum misserum til að styrkja enn frekar núverandi rekstur. Í dag erum við með gott félag í góðum rekstri en ég viðurkenni fúslega að við höfum þurft að taka erfiðar ákvarðanir á þessu tímabili. Það er alltaf erfið ákvörð­un að segja upp fólki en það er huggun harmi gegn að ástandið á vinnumarkaði hefur verið ágætt undanfarið og því auð­veldara fyrir fólk að hverfa til annarra starfa.

Á undanförnum árum höfum við einnig verið að styrkja okkar net mikið. Við höfum verið í góðri sókn undanfarin þrjú ár og erum að halda áfram að byggja upp. Við erum að undirbúa stækkun og breytingar í Varmahlíð í Skagafirði og erum að opna nýja stöð í Reykjanesbæ við Aðalgötuna á leið út á flugvöll. Þá er stöð í hönnun í Vík í Mýrdal sem ég tel að muni skapa okkur góð tækifæri. Við erum búin að endurbæta stöðina okkar á Hellu og stækkað stöðina á Húsavík um meira en helming. Síðan erum við með aðra staði í skoðun, svo sem í Búðardal og við Mý­vatn. Við erum því hægt og bítandi að þétta netið hjá okkur og bæta inn í þessi göt á hringveginum.“

Hvaða áhrif hefur ferðaþjónustan haft á rekstur Olís?

„Það hefur gengið mjög vel að stíga dansinn með ferðaþjónustunni. Við erum að vaxa í takt við ferðaþjónustuna og höfum notið kostanna af vexti ferðaþjónustunnar að mestu leyti. Eftir því sem ferðamönnunum fjölgar, þeim mun þéttara og sterkara verður netið að vera til að þjónusta þessum hópi. Ferðamennirnir koma hingað til að sjá íslenska náttúru og landsbyggðina og því þurfum við að bæta okkar net og fjölga stöðum á landsbyggðinni. Ferðamenn þurfa eldsneyti, mat, hreinlætisaðstöðu, rekstrarvörur fyrir bifreið­ar og vörur fyrir útivist og ferðalög. Svo þurfa ferðaþjónustufyrirtæki alls kyns þjónustu, þannig að þetta er kröfuharður hópur bæði í smásölu og á fyrirtækjasviði. Við höfum verið að styrkja okkar stöðu í kringum þessa vaxandi atvinnugrein og þar sjáum við mikil tækifæri til sóknar.“

Nánar er rætt við Jón Ólaf í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is