Það eru margir kostir en að sama skapi einhverjir gallar við það að leggja sæstreng og selja þannig orku úr landi. Þannig muni raforkuverð hækka við lagningu sæstrengs en að sama skapi sé til ónýtt aflgeta sem hægt væri að selja.

Þetta segir Júlíus Jónssson, forstjóri HS Orku, í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið.

Eftirfarandi kafli, þar sem rætt er við Júlíusum umræðuna um mögulegan sæstreng og sölu á orku úr landi, rataði ekki í prentútgáfu blaðsins og er því birtur hér í heild sinni.

Aðspurður um þetta atriði segir Júlíus að klárlega séu margir góðir kostir við lagningu sæstrengs en á því séu líka gallar.

„Það er ónýtt aflgeta á Íslandi í dag sem hægt væri þá að selja," segir Júlíus.

„Fyrir okkur sem raforkuframleiðendur þá er þetta vissulega góð hugmynd. En við eigum eftir að sjá hvers konar skilmálar yrðu á slíkri sölu, hvort við þurfum alltaf að selja ákveðið magn eða hvort hægt er að láta framboð ráða. Það er eitthvað sem þarf bara að ræða síðar."

Júlíus segir þó að það liggi ljóst fyrir að raforkuverð myndi hækka hér landi með lagningu sæstrengs.

„Það er sama hvað hver segir, raforkuverð myndi hækka," segir Júlíus.

„Ef þú ert komin með tenginguna á milli þá leitast raforkuverðið við það að vera það sama á báðum endum að teknu tilliti til tengikostnaðar, um það er engin spurning. En svo er það kannski allt í lagi. Sumir hafa sett þetta í samhengi við fiskinn. Hér áður gátum við fengið mjög ódýran fisk en nú er hann nokkuð dýr. Á móti kemur að við erum að fá miklar gjaldeyristekjur fyrir hann. Það er kannski allt í lagi að raforkuverð hækki lítillega ef það skilar miklum tekjum í þjóðarbúið. En það verður um leið ekki mikil atvinnusköpun á Íslandi af rafmagni sem er flutt út. Þetta er bara eitthvað sem þarf að skoða betur. Það eru margir kostir en um leið einhverjir gallar sem þarf að taka afstöðu til. Við erum með opinn huga fyrir þessu."

Nánar er rætt við Júlíus í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar fer Júlíus yfir stöðuna sem snýr að væntanlegu álveri í Helguvík, orkunýtingu og mögulegri atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum, viðhorf stjórnmálamanna gagnvart orkunýtingu og stóriðju, stöðu orkufélaga í einkaeigu og margt fleira. Þá tjáir Júlíus sig einnig um fjaðrafokið sem varð þegar kanadískir fjárfestar keyptu HS Orku fyrir þremur árum síðan.