*

þriðjudagur, 26. maí 2020
Innlent 26. ágúst 2016 15:29

Erum svolítið farþegar í þessu máli

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segist ekki eiga von á að verði af mögulegum fjárfestingum félagsins í Perú.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir tilboð í fiskiskipaflota og verksmiðjur China Fishery í Perú ekki vera bindandi, en starfsemi þess í Perú snýr að veiðum og vinnslu á uppsjávarfiskinum ansjósum.

Áhugi fjárfestingarsjóða aukist á sjávarútvegi

„Það eru fjárfestingarsjóðir sem leiða þetta mál, en það var haft samband við okkur um að það yrði einhver fagaðili, það er að segja einhver sem kynni slíkan rekstur, sem kæmi með þeim í þetta, en við erum svolítið svona farþegar í þessu máli,“ segir Þorsteinn Már.

„Það er alveg ljóst að áhugi fjárfestingarsjóða á sjávarútvegi hefur aukist, þeir leita einfaldlega að fagaðilum til að vera með en þeir líta á okkur sem fagaðila í þessu máli. Í raun þekkjum við til þessa félags en við kynntum okkur það vel á sínum tíma þegar Copeinca var skráð á hlutabréfamarkað í Noregi.“

Vill ekki gefa upp tilboðsfjárhæðina

Þorsteinn Már segir þó enga afstöðu hafa verið tekna til framhalds málsins, né heldur vill hann gefa upp hvað tilboðið hljóðar upp á háa fjárhæð, en í frétt Viðskiptablaðsins segir að þau tilboð sem hafa borist nemi allt að 1,5 milljörðum Bandaríkjadala.

„Það er nú oftast þannig að þegar menn skoða eitthvað, þá kannski gerist bara eitthvað í 5% tilvika ekki satt,“ segir Þorsteinn, sem segir engar skuldbindingar af hálfu Samherja í málinu og neitar því að til stæði að senda einhver skip fyrirtækisins til þessara ansjósuveiða.

Á ekki von á að meira gerist í málinu

„Við vorum til í, ef þeir héldu áfram með málið, að skoða það algerlega, en ég er ekki viss um að eitthvað meira gerist í þessu máli,“ segir Þorsteinn Már.

„Í raun á ég ekki von á því að það gerist mikið meira í þessu máli.“