Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sendi í dag Íslandi formlegt áminningarbréf vegna aðgangstakmarkana sem mismuna EES- borgurum búsettum á Íslandi, þar sem aðeins íslenskir ríkisborgarar eru undanþegnir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA.

Áminningin kemur til af því að í maímánuði þessa árs voru sett lög á Íslandi þar sem mælt er fyrir um skyldu flugrekenda sem fljúga til landsins til að kanna hvort farþegar hafi tilskilin vottorð vegna COVID-19 fyrir brottför fluga til landsins. Geti farþegi ekki framvísað slíku vottorði eða staðfestingu um neikvætt próf vegna COVID-19 ber flugrekanda jafnframt skylda til að neita viðkomandi um flutning.
Skyldan til að synja um flutning nær þó ekki til íslenskra ríkisborgara. Að mati ESA mismunar krafan um neitun á flutningi á óréttmætan hátt erlendum EES-borgurum sem eru löglega búsettir á Íslandi.

Í tilkynningunni kemur fram að EES-ríkjum sé heimilt að takmarka för EES-borgara á milli landa til að hefta útbreiðslu COVID-19. Slíkar takmarkanir skuli þó ekki ganga lengra en nauðsynlegt er, auk þess sem þær verði að vera samræmdar og mega ekki mismuna.
Þá segir að ESA hefi, í samskiptum sínum við íslensk stjórnvöld, óskað eftir upplýsingum um forsendur þess að reglurnar eigi ekki við með sama hætti um alla EES-borgara sem eiga búsetu á Íslandi. Enn hafi ekki fengist viðunandi svör sem sýna fram á að aðgerðirnar gæti meðalhófs.

Að auki sé ákvæði í reglugerð settri á grundvelli ofangreindra laga sem feli í sér að farþegar geta ekki notið EES-réttinda sinna sem farþegar í flugi. Ákvæðið sem um ræði feli í sér að ekki skuli líta á takmarkanirnar sem „neitun um far" en það komi í veg fyrir að farþegar geti krafist skaðabóta, jafnvel ef um er að ræða rangt mat flugrekandans á COVID-19 tengdum skjölum farþeganna. Segir ESA þetta fara í bága við EES-lög sem kveði á um aðstoð og bætur til farþega sem neitað er um far.

Formlegt áminningarbréf mun vera fyrsta skrefið í brotaferli gegn EES EFTA ríki. Ísland hefur nú 2 mánuði til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ESA ákveður hvort fara skuli lengra með málið.