*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 20. janúar 2021 16:49

ESA boðar samningsbrotamál

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) telur að íslenska leigubifreiðalöggjöfin takmarki aðgengi að markaðnum og gefur Íslandi tveggja mánaða frest.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) telur að íslenska leigubifreiðalöggjöfin takmarki aðgengi að markaðnum og sé að því leyti í andstöðu við ákvæði EES-samningsins. Stofnunin sendi íslenskum stjórnvöldum bréf þess efnis í dag og veitti þeim tveggja mánaða frest til að bregðast við. Að öðrum kosti kunni stofnunin að höfða samningsbrotamál fyrir EFTA-dómstólnum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ESA. Í yfirlýsingunni segir að núverandi reglur séu ekki hlutlægar og hygli þeim sem slík leyfi hafa. Það feli í sér hindrun fyrir nýja aðila til að hefja starfsemi á markaðnum.

„Að fjarlægja óréttmætar hindranir til að hefja störf í hvaða atvinnugrein sem er er mikilvægt fyrir góða og fulla framkvæmd innri markaðarins,“ er haft eftir Frank J. Büchel, stjórnarmanni ESA, í tilkynningunni. „Með því að fjarlægja hindranir að leigubifreiðamarkaðinum er hægt að stuðla að nýsköpun í atvinnugreininni sem leiðir til lægri fargjalda, betri þjónustu og fleiri valmöguleika fyrir neytendur.“

Frumvarp um breytta skipan á markaðnum var lagt fram á þingi í nóvember 2019 en fékk ekki afgreiðslu úr umhverfis- og samgöngunefnd. Það var lagt fram í nær óbreyttri mynd á fyrsta degi þessa þings, það er 1. október 2020, og hefur fyrstu umræðu verið lokið. Síðast var fjallað um málið í nefnd þann 16. nóvember síðastliðinn og hefur þingnefndin ekki afgreitt málið frá sér.

Stikkorð: ESA Leigubifreiðar