Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) komst í dag að þeirri niðurstöðu að 370 milljón króna fjárfesting Vestmannaeyjahafnar í viðgerðum á skipalyftu feli ekki í sér ríkisaðstoð.

Fram kemur í umfjöllun ESA að árið 2006 bilaði skipalyfta sem starfrækt hafði verið í höfninni frá árinu 1982. Eftir að hafa kannað ýmsa möguleika við fjármögnun viðgerða tók Vestmannaeyjabær ákvörðun um að Vestmannaeyjahöfn, eigandi lyftunnar, skyldi standa straum af kostnaðinum. Ákvörðun var einnig tekin um að bjóða í framhaldinu út rekstur skipalyftunnar. Eftir að hafa borist kvörtun frá eiganda skipalyftu í samkeppni hóf ESA forkönnun á mögulegri ólögmætri ríkisaðstoð.

Í umfjöllun ESA segir að stofnunin byggi niðurstöðu sína á upplýsingum frá Vestmannaeyjarhöfn um að krafið verði gjald fyrir notkun á skipalyftunni sem svara muni til markaðsverðs og að slíkt endurgjald muni nægja fyrir tilfallandi heildarkostnaði. Þá telji ESA að sýnt sé fram á að ávinningur muni ekki hljótast í gegnum gjöldin fyrir notkun á skipalyftunni og því ekki um ríkisaðstoð að ræða í skilningi EES samningsins.

Umfjöllun ESA