Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) komst í dag að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi ekki innleitt á fullnægjandi hátt tvær tilskipanir er varða vinnurétt. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á vef ESA.

Þar kemur einnig fram að íslensk yfirvöld hafa viðurkennt að tilskipanirnar hafi ekki verið innleiddar á fullnægjandi hátt en hafa enn sem komið er ekki  gert ráðstafanir til að samræma landsrétt við EES löggjöf á þessu sviði. ESA hefur því tekið þá ákvörðun að gefa út tvö rökstudd álit sem beinast að Íslandi.

Í fyrsta lagi telur ESA að Ísland brjóti í bága við tilskipun um vernd launþega við gjaldþrot atvinnurekanda með því að krefjast þess að starfsmenn skrái sig sem atvinnuleitendur til að fá útistandandi laun greidd.

Tilskipunin um gjaldþrot atvinnurekanda kveður á um rétt starfsmanna til ógreiddra launa við gjaldþrot atvinnurekanda og tryggir þannig bættan rétt launþega. . Tilskipunin gerir kröfu um að EFTA ríki feli sérstakri stofnun að ábyrgjast slíkar greiðslur. Tilskipunin heimilar EFTA ríkjunum hins vegar ekki að setja þessum rétti launþega sérstök skilyrði líkt og gert er  í íslenskum lögum.

Í öðru lagi eru íslenskar reglur um vinnutíma ekki í fullu samræmi  við vinnutímatilskipunina sem kveður á um árlegt fjögurra vikna orlof. Verði starfsmaður veikur meðan á orlofi stendur, er á Íslandi gerð krafa um að lágmarks fjöldi daga þurfi að líða áður en starfsmaður á rétt á  að fá orlof  sitt framlengt um jafn marga daga.

Rökstuddu álitin teljast lokaviðvörun til Íslands. Ísland fær í kjölfarið tvo mánuði til að gera viðeigandi ráðstafanir til að bregðast við álitunum ella getur ESA ákveðið að fara með málið fyrir EFTA-dómstólinn.