Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), gerir ráð fyrir að svör íslenskra stjórnvalda við áminningarbréfinu sem ESA sendi þann 26. maí berist flljótlega. Ef ekkert kemur fram í svörum íslenskra stjórnvalda sem hnekkir frumniðurstöðu ESA mun ESA senda frá sér rökstutt álit um brot Íslands á skyldum sínum samkvæmt EES samningnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA. Þar segir að Íslandi yrði veittur tveggja mánaða frestur til að breðgast við rökstudda álitinu, að öðrum kosti verði málinu vísað til EFTA dómstólins.

Í máli Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar í gær kom fram að drög að svari við áliti ESA vegna Icesave séu tilbúin. Nú verði unnið að fullkláruðu svari og sagði Jóhanna í Íslandi í dag í gær að aðilar úr já- og neihreyfingum Icesave muni koma að vinnunni auk þess að ekki yrði til sparað við lögfræðilega vinnu.

Fréttatilkynning ESA:

„Í kjölfar þess að Icesave samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 9. apríl 2011 gerir Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) nú ráð fyrir að svör berist fljótlega frá Íslandi við áminningarbréfinu sem ESA sendi þann 26. maí 2010. ESA mun kynna sér andsvör íslenskra stjórnvalda áður en frekari skref verða tekin í málinu.

Ef ekkert kemur fram í svörum íslenskra yfirvalda sem hnekkir frumniðurstöðu ESA, mun ESA senda frá sér rökstutt álit um brot Íslands á skyldum sínum samkvæmt EES samningnum. Íslandi yrði veittur tveggja mánaða frestur til að bregðast við rökstudda álitinu. Geri Ísland það ekki mun ESA vísa málinu til EFTA dómstólsins.“