Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að hætta formlegri rannsókn á því hvort lán ríkissjóðs til fjárfestingarbankanna Saga Capital, VBS og Askar Capital árið 2009 geti flokkast sem ríkisaðstoð. Lánið fólst í því að skammtímakröfum Seðlabankans á hendur bönkunum var breytt í lán til sjö ára á hagstæðum kjörum. Lánin voru komin í vanskil þegar þetta var. ESA vissi ekki af skuldbreytingunni fyrr en kvörtun barst frá hagsmunaaðila í júní ári síðar. Sá taldi um ólögmæta ríkisaðstoð að ræða. ESA hóf síðan formlega rannsókn á málinu.

Fram kemur í tilkynningu ESA að bráðabirgðarniðurstaða stofnunarinnar hafi leitt í ljós að skuldbreytingin hafi falið í sér ríkisaðstoð sem samræmdist ekki EES samningnum. Þar að auki hafi íslensk yfirvöld brugðist skyldu sinni með því að tilkynna ekki ráðstafanirnar áður en þær komu til framkvæmda. Meðan á rannsókninni stóð bárust ESA engar upplýsingar eða röksemdir sem líklegar voru til að breyta frumniðurstöðu stofnunarinnar.

Saga Capital, VBS og Askar Capital eru allir farnir í þrot, starfsleyfi þeirra verið afturkölluð, slitameðferð hafin og kröfulýsingarfrestur útrunninn í öllum tilvikum.

„Við þessar aðstæður þjónar endanleg ákvörðun af hálfu ESA um það hvort aðgerðirnar hafi falið í sér ríkisaðstoð til handa bönkunum og hvort sú aðstoð samrýmist EES samningnum engum tilgangi. ESA hefur því ákveðið að loka formlegri rannsókn sinni í þessu máli,“ segir í tilkynningu ESA.