Íslensk stjórnvöld fengu í gær heimild frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) til að setja á fót sérstakt styrkjakerfi til nýfjárfestinga á landsbyggðinni.

Styrkjakerfið á að ná til innlendra og erlendra fyrirtækja með að minnsta kosti 300 milljóna króna ársveltu. Skilyrði er að fjárfest sé í starfsemi sem skapi að minnsta kosti 20 bein störf.

Slík fyrirtæki munu geta sótt um styrk til Fjárfestingastofu sem getur veitt þeim beina styrki auk ýmissa undanþága frá sköttum og gjöldum til ríkis og sveitarfélaga í allt að 10 ár. Styrkjakerfið á að vera við lýði út árið 2013.

Samkvæmt EES-samningnum er íslenska ríkinu skylt að tilkynna ESA fyrirfram um allar áætlanir sínar um veitingu ríkisaðstoðar, enda má einungis veita slíka að fengnu samþykki ESA.