Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að hefja rannsókn á hvort ríkisábyrgð á afleiðusamningum Landsvirkjunar feli í sér ríkisaðstoð sem stangast á við EES-samninginn. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ESA.

„Könnun ESA lýtur að því hvort Landsvirkjun nýtur efnahagslegs ávinnings af ríkisábyrgðinni eða hvort endurgjaldið fyrir hana er á markaðskjörum. Ákvörðunin í dag felur ekki í sér niðurstöðu í málinu,“ segir Helga Jónsdóttir, stjórnarmaður ESA.

„Að mati ESA geta ábyrgðirnar á afleiðusamningum Landsvirkjunar leitt til efnahagslegs ávinnings fyrir fyrirtækið og því virðast þær ekki vera í samræmi við EES-reglur. Þegar ESA hefur fengið fullnægjandi upplýsingar og lokið rannsókn sinni getur niðurstaðan þó orðið sú að ekki sé um að ræða ríkisaðstoð eða að ríkisaðstoð sé í samræmi við EES-samninginn að hluta eða öllu leyti. ESA kallar nú eftir athugasemdum og upplýsingum frá íslenskum yfirvöldum. Jafnframt kallar stofnunin eftir athugasemdum frá þeim aðilum sem telja sig eiga hagsmuna að gæta,“ segir í tilkynningunni frá ESA.