Íbúðalánasjóður.
Íbúðalánasjóður.
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Eftirlitssofnun EFTA (ESA) ákvað í gær að leggja til við íslensk stjórnvöld að breytingar verði gerðar á Íbúðalánasjóði til að laga hann að ríkisaðstoðarreglum EES samningsins. Ákvörðuninni skal komið í framkvæmd fyrir 1.janúar 2012 af því er fram kemur á vefsíðu EFTA.

ESA telur að samkvæmt dómi EFTA dómstólsins frá 2006 beri íslenskum stjórnvöldum að skilgreina betur hlutverk Íbúðalánasjóðs í almannaþjónustu. Tryggja þarf að þeirri ríkisaðstoð sem sjóðurinn nýtur sé einungis varið til starfsemi tengdri almannaþjónustu, en henni sé ekki varið til starfsemi af viðskiptalegum toga. Nú nýtur Íbúðarlánasjóður ríkisaðstoðar í formi ótakmarkaðrar ríkisábyrgðar, undanþágu frá tekjuskatti og niðurgreiddra vaxta til veitingu veðlána vegna starfsemi leiguhúsnæði. Ekki er gerð krafa um eðlilega arðsemi eiginfjár sjóðsins.

Af þessu tilefni hefur ESA lagt til að gripið verði til viðeigandi aðgerða til þess að laga starfsemi Íbúðalánasjóðs að ríkisaðstoðarreglum EES samningsins. Á meðal þess sem lagt er til við íslensk stjórnvöld er að þak verði sett á verð og stærð þess húsnæðis sem Íbúðarlánasjóður fjármagnar. Tillögur ESA miða einnig að því að koma í veg fyrir að ívilnanir tengdar almannaþjónustu komi viðskiptahluta starfseminnar til góða.

Samþykki íslensk stjórnvöld tillögur ESA innan sex vikna og komi þeim í framkvæmd er málinu þar með lokið. Að öðrum kosti kann svo að fara að ESA hefji formlega rannsókn á grundvelli aðfinnslna sinna.