Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur veitt græna ljósið á kaupum Íslandsbanka á Byr. Þá veitir ESA jafnframt lánafyrirgreiðslu ríkisins til Byrs þar til bankinn hafi runnið saman við Íslandsbanka. Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið samþykktu viðskiptin á mánudag.

Í rökstuðningi ESA sem birtur er á vefsíðu stofnunarinnar í dag kemur fram að Íslandsbanka er heimilt að kaupa Byr þrátt fyrir að hafa áður hlotið ríkisaðstoð.

Þá segir að ESA hafi samþykkti lánafyrirgreiðslu til Byr í hálft ár í apríl. Markmiðið hafi verið að endurfjármagna Byr. Síðar hafi komið í ljós að bankinn þurfti á meira eigin fé að halda til þess að uppfylla lagaskilyrði. Bankinn hafi því verið settur í opið söluferli sem lauk með því að Íslandsbanki keypti Byr.

Þá bendir ESA á að Íslandsbanki, líkt og Byr, hafi notið ríkisaðstoðar í kjölfar fjármálakreppunnar. Við venjulegar kringumstæður sé bönkum sem notið hafa ríkisaðstoðar ekki heimilt að festa kaup á samkeppnisaðilum sínum.

Undantekningar eru veittar frá því og er Íslandsbanka gert skilt að skila samrunaáætlun um endurskipulagningu til ESA innan þriggja mánaða frá því samruninn á sér stað. Áætlunin skal innihalda aðgerðir sem miða að því að virk samkeppni ríki á íslenskum bankamarkaði eftir samrunann, að því sem ESA sendi frá sér um málið.